Í lok janúar sl. birtust fréttir af því að Votlendissjóðurinn hefði ákveðið að draga úr rekstri sjóðsins (tímabundið). Ástæðan var skortur á jörðum til endurheimtar votlendis og áhrif krafna um vottun þriðja aðila líkt og kveður á um í nýlegri Tækniforskrift Staðlaráðs um kolefnisjöfnun.

Staðan sem nú er komin upp með Votlendissjóð og gagnvart öðrum kolefnisverkefnum er óumflýjanleg afleiðing af stefnubreytingu hjá Evrópusambandinu (e. ESB) sem hefur sett fram nýtt regluverk tengt sjálfbærni og loftslagsmálum og verður brátt innleitt á Íslandi. Þetta regluverk mun fela í sér verulegar auknar kröfur um bæði hvernig aðilar sem bjóða upp á kolefnisjöfnun, og hvernig fyrirtæki sem vilja kaupa kolefniseiningar, skulu beita sér. Með nýju ESB-regluverki eykst þörfin fyrir vottanir á mótvægisaðgerðum fyrirtækja í loftslagsmálum og tengja þær við aðgerðir við að draga markvisst úr kolefnislosun (t.d. út frá Science Based Targets Initiative). Því ber að fagna að fyrirtæki geti loks unnið með vottaðar mótvægisaðgerðir sem er besta leiðin til að ná mælanlegum árangri.

Auknar kröfur á vottun kolefnisverkefna breyta því þó ekki að loftslagsbreytingar eru farnar að hafa áhrif á daglegt líf mannkyns og við verðum að halda áfram að styðja verkefni sem miða að því að bregðast við loftlagsvandanum. Eftirspurn eftir kolefniseiningum hefur aukist alþjóðlega gríðarlega hratt sem má rekja til aðdraganda og niðurstöðu COP26 um samdrátt ríkja í losun. Í beinu framhaldi hefur fyrirtækjum sem lýsa yfir fullu kolefnishlutleysi (e. net-zero) fjölgað og vilja þau kolefnisjafna losun frá sínum rekstri sem ekki er unnt að koma í veg fyrir.

Leiðin að kolefnishlutleysi

Það er vitað að fyrirtæki og stofnanir geta minnkað sína losun með nokkuð einföldum skrefum og má þar nefna minni og betri orkunýtingu, minni pappírsnotkun, endurvinnslu og rafvæðingu bílaflota. Einnig er mikilvægt að fyrirtæki kortleggi og taki ábyrgð á óbeinni losun úr virðiskeðju fyrirtækisins, svokallað umfang 3. Þessi minnkaða losun nægir þó oft ekki til að ná kolefnishlutleysi. Kaup á vottuðum kolefniseiningum geta þá komið til hjálpar. Eitt tonn af koldíoxíði er ígildi einnar kolefniseiningar sem verður til þegar koldíoxíð er t.d. bundið með skógrækt og endurheimt votlendis eða við það að draga úr losun frá ákveðinni starfsemi eins og t.d. með breytingum á ræktunaraðferðum eða með tækninýjungum sem draga úr losun ýmissa ferla. Kolefniseiningar geta bæði verið í „bið“ eða „virkar“. Ef um kolefnisbindingu er ræða í t.d. jarðvegi, trjám, sjávarbotni eða bergi eru einingar fyrst um sinn í bið og raungerast ekki fyrr en að óháður vottunaraðili hefur staðfest að binding hafi á sér stað. Þegar búið er að staðfesta bindinguna verður einingin virk og er þá hægt að nota hana á móti losun. Einnig er hægt að kaupa virkar einingar sem þá er hægt að nota strax á móti losun. Almennt eru virkar einingar dýrari en einingar í bið. Sömuleiðis eru einingar sem verða til við bindingu kolefnis dýrari en einingar sem byggja á tækninýjungum sem draga úr losun en ekki bindingu. Mælt er með því að fyrirtæki fjárfesti bæði í virkum einingum og einingum í bið frá mismunandi tegundum kolefnisverkefna enda hafa ótal verkefni og lausnir verið settar á legg sem skapa kolefniseiningar. Skilgreindar hafa verið 170 tegundir verkefna á heimsvísu eins og sjá má á eftirfarandi mynd og er umgjörð um slík verkefni orðin nokkuð stöðluð.

Heimild: The Art of Integrity.  State of the Voluntary Carbon Markets 2022 Q3. Skýrsla: Ecosystem Marketplace 2022.
Heimild: The Art of Integrity. State of the Voluntary Carbon Markets 2022 Q3. Skýrsla: Ecosystem Marketplace 2022.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

En hvernig varð hugtakið kolefniseining til?

Hugmyndin um kolefniseiningar á rætur sínar að rekja til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum og þörfinni fyrir nýjum og fjölbreyttum leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig er hægt að fjármagna slík verkefni.

Kolefniseiningar voru formgerðar í tengslum við rammasamning Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmál, nánar tiltekið við Kyotobókunina, sem var viðbótarbókun við rammasamninginn. Meginmarkmið bókunarinnar var að draga úr losun á heimsvísu og fá til þess aðkomu sem flestra iðnríkja. Bókunin var samþykkt 1997 og tók gildi árið 2005. Í dag hafa 192 ríki, þar á meðal Ísland, staðfest bókunina.

Markmið bókunarinnar var því að fá sem flest iðnríki til þess að taka höndum saman og draga úr sinni losun. Efnahagslegar aðstæður iðnríkja eru ólíkar og tekur Kyotobókunin tillit til efnahagsaðstæðna ríkja þegar losunarmörk voru sett. Sem dæmi tók ESB á sig sameiginlega skuldbindingu upp á 8% samdrátt en ríki sambandsins sömdu um skiptingu á þessum samdrætti sín á milli í samræmi við efnahag hvers lands. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var tekið í notkun kerfi sem nefnist The Clean Development Mechanism (CDM) til að auðvelda þróunarríkjum að taka á sig skuldbindingar vegna Kyotobókunarinnar.

ESB stofnaði síðan sinn eigin kolefnismarkað árið 2005 undir evrópsku regluverki, en markaðurinn er þekktur sem viðskiptakerfi ESB (ETS EU Emissions Trading System) sem setur losunarheimildir á stóriðju ríkja sambandsins og gerir fyrirtækjum kleift að kaupa og selja kolefniseiningar innan kerfisins sem fjárhagslegan hvata iðnríkja til að draga úr sinni losun. Hvert fyrirtæki hefur því sitt losunarþak og ef fyrirtæki nær að draga úr sinni losun með því að halda sig undir sínu losunarþaki getur það selt losunarheimildir sínar til þess sem fór yfir sitt losunarþak. Þannig greiðir kaupandi fyrir mengun en seljandi er verðlaunaður fyrir að draga úr losun.

Samhliða þessu varð til valkvæður kolefnismarkaður sem örvaði þátttöku smærri fyrirtækja og einkaaðila til þess að draga úr losun og stuðla að bindingu kolefnis. Valkvæður markaður er markaður sem ekki er skyldumarkaður, ólíkt viðskiptakerfi ESB. Valkvæði markaðurinn nær yfir stór og smá verkefni en aldrei er hægt að gefa út kolefniseiningar á valkvæðum markaði fyrir starfsemi sem fellur undir t.d. viðskiptakerfi ESB.

Gagnrýni á kolefnismarkaði

Umræðan í ákveðnum hópum samfélagsins hefur oft á tíðum verið í þá áttina að kolefniseiningar séu leið einkageirans til þess að hagnast á loftlagsvandanum. Kolefniseiningar hafa einnig verið gagnrýndar sem leið fyrirtækja til að halda áfram að losa gróðurhúsalofttegundir án þess að grípa til aðgerða til að draga úr eigin losun. Einnig hafa komið fram efasemdaraddir um að kolefnisverkefni séu raunverulega að skila þeim árangri sem þær eru sagðar gera og þá vísað til svokallaðs „grænþvottar“.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru kolefniseiningar bæði í viðskiptakerfi ESB sem og á valkvæða markaðnum, tæki til að vinna á móti loftlagsbreytingum. Þær eru einnig leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki til þess að styðja við loftlagsverkefni á borð við endurheimt vistkerfa og líffræðilegan fjölbreytileika sem og að tryggja fjármagn til stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki við að þróa tækni og aðferðir sem miða að því að bæta umhverfið.

Kolefniseiningar styðja einnig bændur með nýrri tegund landbúnaðar og vísindafólk við nýsköpun. Útgáfa kolefniseininga getur þannig gert þeim kleift að fjármagna sig án þess að treysta á opinberan stuðning og styrki.

Nauðsynlegt að uppfylla alþjóðlegar gæðakröfur

Til þess að geta búið til, vottað, skráð og selt hágæðakolefniseiningar þurfa loftslagsverkefni að uppfylla ákveðnar kröfur þartilgerðra staðla. Dæmi um slíka staðla eru Tæknisforskrift um kolefnisjöfnun ÍST TS 92 sem byggir á ISO 14064-2, Verra, Gold Standard og CDM og krefjast þeir allir staðfestingu og vottun þriðja aðila. Að lokinni vottun skal skrá verkefnin í loftslagsskrá sem síðan er hægt að kaupa og selja einingarnar en ein slík skrá er til staðar hér á landi (Loftslagsskrá Íslands) auk fleiri slíkra skráa á alþjóðavísu.

Kolefnisérfræðingar Deloitte hafa veitt ráðgjöf til ýmissa loftlagsverkefna á bæði innlendum og erlendum vettvangi. Er um að ræða fjölbreytt loftlagsverkefni sem byggja á félagslegum og tæknilegum lausnum sem miða að því að minnka kolefnislosun yfir í verkefni sem byggja á náttúrulegum lausnum og ganga fyrst og fremst út á að binda kolefni. Má þar helst nefna endurheimt vistkerfa á landi og í sjó en helstu verkefni sem Deloitte hefur stutt við í dag eru Running Tide sem miðar að varanlegri förgun kolefnis í hafsbotni, Hydrasyst sem hefur hannað lausn sem stuðlar að minni gas og vatnsnotkun í iðnaðarþvottahúsum í Bretlandi og forða þannig umtalsverða losun, YGG Carbon sem hefur nýlega boðið upp á fyrstu vottuðu Skógarkolefniseiningar í bið og SoGreen sem tryggir menntun stúlkna í Monze héraði í Sambíu.

Kolefnisverkefni eru framtíðartækifæri fyrir Ísland

Stöðlun kolefnisverkefna og vottun þeirra tryggir að þau séu raunverulega til gagns og leiði vissulega til minnkunar koldíoxíðs í andrúmslofti en koldíoxíð er jú stærsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar. Ísland er í einstakri stöðu að binda meira kolefni en það losar, hvort sem það er útfrá náttúrulegum (s.s. nýskógrækt, endurheimt votlendis, koma í veg fyrir jarðvegseyðingu, landbúnaði eða bindingu í hafi) eða tæknilegum aðferðum (s.s. Carbfix tækninni, sorpeyðingu, orkuskiptum). Því er það miður að landið sé í skuld eftir Kyoto-tímabilið sbr. frétt þess efnis hér: Kaupa heimildir annarra til að standa við Kýótó-skuld­bindingar, en með markvissu átaki stjórnvalda og atvinnulífsins við að koma á vottuðu ferli fyrir slík verkefni og tryggja fjármagn frá opinberum- og einkaaðilum er hægt að snúa þessari þróun við og um leið skapa nýja atvinnugrein hér á landi, loftslaginu og íslensku samfélagi til heilla. Við hjá Deloitte ætlum að leggja okkar að mörkum til að slíkt raungerist.

Rannveig Anna Guicharnaud er liðsstjóri í sjálfbærniteymi Deloitte og Gunnar Sveinn Magnússon er meðeigandi og yfirmaður sjálfbærniteymis Deloitte.