Margt er að gerast í heimi fjártækninnar þar sem ótal nýjar lausnir birtast, sækja fram og breyta því hvernig við notum peninga. Á fjártækninni eru margir angar, en að baki hennar allrar má finna tvo meginkrafta sem takast á í öllum þessum breytingum: samþjöppun og valddreifingu.

Samþjöppun valds yfir neytendum

Samþjöppunin sést víða og felur í sér aukið eftirlit og jafnvel aðgerðir gegn því að fólk geti notað reiðufé. Þetta býður upp á hættuna á misnotkun valds, t.d. gegn tjáningarfrelsi, þar sem bankareikningar hafa verið frystir hjá fólki fyrir skoðanir þess. Gott dæmi um það er aðgerðir kanadískra stjórnvalda á síðasta ári gegn mótmælendum og þeim sem studdu þá fjárhagslega.

En dæmin um þessa misnotkun valds eru fleiri. Margir hafa áhyggjur af því að fjármálakerfi Vesturlanda stefni í átt að kínverska módelinu, þar sem hið opinbera telur sér heimilt að fylgjast náið með fólki og refsa því fyrir „óæskilega“ hegðun og skoðanir.

Samþjöppunin á sér ekki eingöngu stað á vegum ríkisvalds, heldur taka einkaaðilar stundum viljugir þátt. Sumir þeirra vilja samþjöppun til að gera líf sitt þægilegra og minnka samkeppni í verði og nýsköpun.

Sumum stórfyrirtækjum þykir ágætt að vinna náið með hinu opinbera og að regluverk aukist, því það felur í sér að byrðar eru oft léttari fyrir þau en samkeppnisaðila þeirra. Ég held að í þessu hugarfari felist misskilningur um langtímahagsmuni fyrirtækjanna. Þau verða brothættari ef þau reiða sig á samþjöppun og glata einnig frábærum tækifærum til verðmætasköpunar.

Opin bankastarfsemi

Á móti stuðlar valddreifing að frelsi neytenda, aukinni samkeppni og meiri nýsköpun. Þetta er hugsunin á bak við það sem er kallað opin bankastarfsemi (e. open banking). Ýmis skref hafa verið tekin í þá átt en mörgum hefur þótt þetta ganga hægt.

Þessi þróun hefur átt sér stað að hluta til á grundvelli regluverks frá Evrópusambandinu sem kallast PSD2 (payment services directive 2). Í stuttu máli skylda þessar reglur banka til að opna vefþjónustur þannig að önnur fjármála- og fjártæknifyrirtæki geti haft milligöngu um aðgengi neytenda að reikningum sínum og þannig tvinnað alls kyns þjónustu við.

Bálkakeðjur

Bálkakeðjur eru önnur tækni sem gerir opna bankastarfsemi mögulega. Munurinn er sá að bálkakeðjurnar eru í miklu meiri mæli sjálfsprottnar og eru opnari en vefþjónustur banka. Kóði þeirra er opinn og þekktur og notkun á bálkakeðjum krefst ekki leyfis. Einnig eru bálkakeðjurnar einfaldari við færslur og viðskipti því þær liggja miðlægt á netinu og allir eiga samskipti beint á þeim. Það er t.d. ólíkt venjulegri greiðslumiðlun, þar sem greiðslur þarf að rekja frá banka til banka í neti sem getur verið flókið og krefst þátttöku þeirra allra.

Óháð smágreiðslulausn

Hugmyndir um óháða smágreiðslulausn á Íslandi ganga út á valddreifingu. Hún gengur út á að Íslendingar fái fleiri valkosti þegar þeir borga og að erlend fyrirtæki og ríki hafi minna vald yfir þeim. Seðlabankinn hefur talað fyrir þessu að undanförnu og ef þetta er vel útfært er þetta hagstætt öllum Íslendingum, þar með talið bönkunum.

Seðlabankarafeyrir

Hugmyndir eru uppi um seðlabankarafeyri, reiðufé sem seðlabanki gefur út og hægt er að nota á netinu. Margir óttast að slík lausn muni auka samþjöppun og verða tól hins opinbera til að stjórna almenningi. Það fer þó alfarið eftir útfærslunni, því seðlabankarafeyri er t.d. hægt að útfæra með bálkakeðjulausnum þannig að enginn hafi stjórn á því hver megi nota hann eða upplýsingar um það hver eigi hann. Ef það heppnast vel getur það ýtt undir sjálfstæði og frelsi neytenda, því þeir þurfi ekki lengur að notast við milliliði þegar þeir spara og borga.

Ábyrgð banka

Bankar starfa á grundvelli leyfa sem erfitt er að fá og bera þannig sérstaka ábyrgð í samfélaginu. Þeir eiga að rækta ástríðu sína fyrir valdeflingu neytenda. Ef neytendur finna að bankar eru góðir ráðsmenn fjármálakerfisins, mun viðhorfið gagnvart þeim líklega verða jákvæðara. Þetta skiptir miklu meira máli en allt sem bankar gera í ímyndarskyni, t.d. í umhverfis- og samfélagsmálum.

Neytendinn vill fyrst og fremst að banki sýni ábyrgð og umhyggju á sínu eigin sérsviði, í fjármálum. Og ef hann trúir því að banki geri það, er hann líklegri til að trúa því að bankinn sé sannur í umhyggju sinni í öðru. Íslenskir bankar hafa tekið mikilvæg skref í þessa veru, meðal annars með þátttöku sinni í starfi Fjártækniklasans, þar sem finna má mikla grósku nýsköpunar. En þetta er bara rétt að byrja.