Það hefur löngum verið eftirsótt að vera bankastjóri á Íslandi, sem og reyndar í öðrum löndum. Í eina tíð þurftu menn að vera með rétt flokksskírteini til að hljóta starfið og á tímum ríkisbankanna þurftu allir flokkarnir að koma sínum gæðingum að, hvort sem það var í gegnum bankastjórastóla eða bankaráðsformenn. Þar voru meira að segja kommúnistar ekki undanskildir eins og sást á bankaráðssetu Einars Olgeirssonar í Landsbankanum. Pólitísk skömmtun á fjármagni var þá regla fremur en undantekning og arðsemi verkefna var metin eftir flokkslit.

***

Í gegnum tíðina hafa bankastjórar verið vinmargir. Margir eru hins vegar á því að það hafi verið einmanalegra starf undanfarið að stýra íslensku bönkunum. Þeir hafa þó haft ágæt laun til að hugga sig við og er þess skemmst að minnast þegar Lárus Welding fékk 300 milljónir króna fyrir að koma yfir til Glitnis frá Landsbankanum. „Kaupverðið“ skýrist meðal annars af því að það þurfti að kaupa upp kaupréttarsamninga hans hjá Landsbankanum.

Laun bankastjóranna hafa verið meira undir smásjá undanfarið, sjálfsagt vegna þess að það hefur kreppt að bönkunum – meðal annars vegna harðrar gagnrýni frá frændum okkar Dönum. En hver eru laun íslensku bankastjóranna í samanburði við þá dönsku? Nærtækt er að taka dæmi af Peter Straarup, aðalbankastjóra Danske Bank, en það er stærsti banki Danmerkur. Hann var með um 12,6 milljónir danskra króna árslaun í fyrra, eða um 165 milljónir íslenskra króna sem þætti líklega þokkalegt en þó ekkert sérstakt hér á Íslandi. Laun hans hækkuðu um tæpar fjórar milljónir króna í fyrra.

***

En af því að Týr er sagnfræðilega sinnaður langar hann að rifja upp áhrif Sambandsins á íslenska bankakerfið – sem voru mikil því að í eina tíð var Sambandið eini aðilinn, fyrir utan ríkissjóð, sem mátti taka lán erlendis. Áhrif Sambandsins fjöruðu út á tíunda áratug liðinnar aldar en birtust svo aftur þegar einkavæðing bankakerfisins gekk yfir í upphafi þessarar aldar.

Það hefur löngum verið samkvæmisleikur hér á landi að velta fyrir sér hvað Sambandið hafði upp úr einkavæðingunni en þó ekki síður Finnur Ingólfsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra (1995-1999) og bankastjóri Seðlabankans (2000- 2002), sem er nú umsvifamikill fjárfestir. Óhætt er að segja að stóra kúppið fyrir S-hópinn svokallaða hafi verið þegar hann fékk að kaupa Vátryggingafélag Íslands hf. út úr Landsbankanum um leið og Samson-hópurinn keypti bankann í lok árs 2002.

***

Í þættinum Mannamáli á Stöð 2 18. nóvember síðastliðinn greindi Finnur frá því að þeir hefðu greitt 14 milljarða króna fyrir allt félagið, sem er að mati Sverris Hermannssonar, fjandvinar Finns, aðeins hálfvirði. Þar virðist hann hafa nokkuð til síns máls þegar horft er til þess að tveimur og hálfu ári eftir kaupin á VÍS seldi S-hópurinn félagið fyrir 67 milljarða króna. Mismunur á kaupverði og söluverði reyndist vera 53 milljarðar króna og ávöxtunin líklega ágæt, sérstaklega þegar horft er til þess að ekki urðu svo miklar breytingar á rekstri félagsins á þessum tíma.

***

Sjálfsagt skýrir ekkert betur en þetta það viðskiptaveldi sem Finnur Ingólfsson hefur náð að byggja upp en hann settist í forstjórastól VÍS í framhaldi af kaupunum. Þess má geta að Samson-hópurinn greiddi sem svaraði 12,6 milljörðum króna fyrir 45% hlut í Landsbankanum í lok árs 2002 en skömmu áður höfðu Ker hf., Eignarhaldsfélagið Samvinnutrygging, Samvinnulífeyrissjóðurinn og Eignarhaldsfélagið Andvaka aukið eignarhlut sinn í VÍS með kaupum á um 27% hlutafjár í félaginu af Landsbanka Íslands hf. Að auki tóku þessir fjórir aðilar á sig kaupskyldu á allt að 21,4% hlutafjár.

Eftir kaupin áttu þessir fjórir hluthafar samtals 69,73% hlutafjár í VÍS en eignuðust það að fullu síðar. S-hópurinn hefur ávaxtað sitt pund ágætlega síðan og er enn að fjárfesta í íslenska bankakerfinu. Má vera að þeir skaffi okkur bankastjóra í framtíðinni með samvinnuhugsjónir á bak við sig!