Það blæs ekki byrlega fyrir Pírötum um þessar mundir. Fyrir nokkrum vikum lýsti Björn Leví Gunnarsson þingmaður flokksins því yfir að Píratar ætluðu að vera stærri en Sjálfstæðisflokkurinn eftir komandi kosningar.
Dramb er falli næst og kannanir hafa að undanförnu ítrekað að Píratar séu við það að falla af þingi. Enda virðast baráttumál hreyfingarinnar vera um ekki neitt. Lenya Rún Taha Karim annar af oddvitum flokksins í Reykjavík sagði í viðtali við Morgunblaðið að Píratar vildu koma í veg fyrir uppbyggingu baðlóna á Íslandi og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir oddviti í Suðvesturkjördæmi hefur sagt að eina útlendingavandamálið á Íslandi séu ferðamenn.
Þetta virðist ekki skila sér í auknu fylgi. Það vekur athygli hrafnanna að Píratar tala ekkert um nýja stjórnarskrá en undanfarnar kosningar hefur samþykkt hennar verið skilyrði flokksins fyrir ríkisstjórnarþátttöku.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. nóvember 2024.