Ísland er einstakt land. Við búum við forréttindi og velferð sem því miður er sjaldséð í þessum heimi en við eigum það til að taka því sem sjálfsögðum hlut. Það er því gaman að taka á móti ferðamönnum sem dásama og kunna að meta land og þjóð. Flestir heimsækja Ísland til að upplifa stórbrotna náttúru en þegar hingað er komið þá eiga ferðamenn vart orð yfir því að hér sé enginn her, lögreglan er ekki vopnuð, vatnið í krananum er það sama og þú kaupir úti í búð, börn leika sér úti fram á kvöld svo ekki sé talað um hreinu orkuna, söguna, menninguna, fámennið og kyrrðina sem liggur í ósnortinni víðáttu allt í kringum okkur.

Ísland er einstakt land. Við búum við forréttindi og velferð sem því miður er sjaldséð í þessum heimi en við eigum það til að taka því sem sjálfsögðum hlut. Það er því gaman að taka á móti ferðamönnum sem dásama og kunna að meta land og þjóð. Flestir heimsækja Ísland til að upplifa stórbrotna náttúru en þegar hingað er komið þá eiga ferðamenn vart orð yfir því að hér sé enginn her, lögreglan er ekki vopnuð, vatnið í krananum er það sama og þú kaupir úti í búð, börn leika sér úti fram á kvöld svo ekki sé talað um hreinu orkuna, söguna, menninguna, fámennið og kyrrðina sem liggur í ósnortinni víðáttu allt í kringum okkur.

Þetta eru auðlindir framtíðarinnar sem margar hverjar þekkjast vart lengur og hvað þá saman komnar á einum stað líkt og við þekkjum manna best hér á Íslandi. Þessar auðlindir fela í sér tækifæri til að undirstrika sérstöðu Íslands sem einstakt land bæði til að heimsækja og ekki síður til að búa á. Það er því löngu tímabært að við tökum okkar taki og verðum fyrirmyndir á heimsvísu í því hvernig við umgöngumst landið okkar og auðlindir. Slíkt mun fljótt skila sér í bættu umhverfi, jákvæðri umfjöllun, meiri lífsgæðum og jafnframt heilbrigðum og sjálfbærum vexti ferðaþjónustunnar.

Í þessu samhengi hef ég haft áhyggjur af því að umræðan undanfarið hefur oft snúist um það að Ísland eigi að vera dýrt land og að við eigum að ná í efnameiri ferðamenn. Ég held að slíkt viðhorf sé á villigötum og gæti hæglega skaðað okkur til langs tíma. Mun vænlegra er að kafa dýpra í það hvernig við getum gert „vöruna“ og vörumerkið Ísland meira spennandi byggt á sérstöðu okkar og þannig laðað til okkar betur hugsandi ferðamenn sem koma til Íslands á réttum forsendum og bera virðingu fyrir landi og þjóð.

Samkeppnin um ferðamenn hefur sjaldan verið meiri og stórbrotna náttúrufegurð er víða að finna um allan heim. Það sama verður hins vegar ekki sagt um hreint vatn, hreint loft, hreina orku, öryggi, fámenni og ósnortna víðáttu. Þar liggur tækifærið. Allt eru þetta liðir í að búa til og efla vörumerkið Ísland sem ég vil meina að sé eitt það dýrmætasta sem við eigum en jafnframt viðkvæmasta því líkt og gott orðspor sem byggist upp á löngum tíma þá getur það hæglega glatast á einni nóttu.

Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið að ferðamenn streymi til landsins. Með tilkomu samfélagsmiðla, gervigreindar og aðgengi að endalausum upplýsingum þá skiptir sköpum að við sameinumst um sterka stefnu og gildi fyrir Ísland og vinnum markvisst að því að ná settum markmiðum.

Slík vinna er í gangi að einhverju marki og stjórnvöld hafa í auknum mæli áttað sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið en það er enn langt í land og sérstaklega þegar kemur að því að þora að hugsa aðeins út fyrir kassann og klippa á gamla fortíðardrauga.

Til dæmis spyr ég mig af hverju í ósköpunum er enn verið að selja upprunavottorð fyrir hreina orku framleidda á Íslandi til erlendra fyrirtækja. Fyrir vikið komumst við ekki á lista yfir þau lönd sem eru með hreinustu orkunýtingu í heiminum sem er sorglegt. Erum við virkilega tilbúin til að selja frá okkur ímynd Íslands?

Það sama má segja um laxeldi í sjókvíum og hvalveiðar. Það að hvalveiðar skuli ennþá viðgangast með núverandi hætti er óskiljanlegt. Það sama má segja um laxeldi í sjókvíum. Hvernig má vera að svona umhverfisslys séu ennþá leyfð? Villti laxinn okkar er í hraðri útrýmingarhættu sem okkur ber skylda til að verja og vernda.  Að vernda villta laxastofninn er einnig gott dæmi um eitthvað sem virðist kannski léttvægt en er algjört lykilatriði í að sýna að við berum virðingu fyrir nýtingu auðlinda okkar, náttúru og umhverfi.

Ferðamenn við Jökulsárlón.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Annað dæmi eða tækifæri er af hverju erum við að selja íslenska vatnið í plastflöskum út um allt land þegar sama frábæra vatnið er ókeypis í krönum allra landsmanna. Við eigum að vera stolt af vatninu okkar og kynna þessa staðreynd sem víðast enda fer það að verða fáheyrt að hægt sé að drekka hreint gott vatn beint úr krana eða lækjum landsins. Vatn er olía þessarar aldar. Allt eru þetta atriði sem iðulega koma upp í umræðunni en því miður er eins og okkur skorti vilja eða kjark til að koma þessum málum í lag.

Förum á flug

Samhliða því að taka aðeins til í bakgarðinum hjá okkur þá er áhugavert að velta fyrir sér með hvaða hætti getum við og ferðaþjónustan tryggt stöðu Íslands sem framsækið og einstakt land til að heimsækja næstu árin og áratugina.

Hvað ef Keflavíkurflugvöllur yrði fyrsti alþjóðlegi flugvöllurinn í heiminum sem byði upp á 100% hreina orku fyrir rafmagnsflugvélar framtíðarinnar? Hljómar fjarstæðukennt? Það gerðu líka rafmagnsbílar ekki fyrir alls löngu. Staðreyndin er sú að rafmagnsflugvélar eru að verða að raunveruleika og líkt og með rafmagnsbílana þá mun drægnin skipta miklu máli. Það vill svo til að enginn getur keppt við legu Íslands og getu til að verða stoppistöð framtíðarinnar fyrir rafmagnsflugvélar sem munu allavega í fyrstu eiga erfitt með að fljúga beint yfir Atlantshafið á einni hleðslu. Hér gæti verið gríðarlegt tækifæri fyrir Ísland og ferðaþjónustuna að hefja strax slíkan undirbúning og umræðu sem myndi án efa vekja heimsathygli.

Á meðan við bíðum eftir rafvæðingu ISAVIA og flugflota heimsins, sem mun væntanlega taka 20-30 ár í viðbót að mótast, þá er tilvalið að rafvæða frekar bílaflota og rútur landsmanna en jafnframt kynna til leiks sjálfakandi rafbíla til og frá Keflavík sem yrði seinna útvíkkað á landsvísu. Hljómar líka fjarstæðukennt en það er nú þegar fjöldi borga aðallega í Kína og Bandaríkjunum sem býður upp á sjálfakandi leigubíla og flytja þúsundir farþega á degi hverjum. Það væri tiltölulega auðvelt að koma á öflugu neti frá Keflavík yfir á stór Reykjavíkursvæðið til að byrja með sem mun setja sterkan og skemmtilegan svip á bæinn fyrir utan það að borg og ríki geti þar með sparað sér hundruð milljarða með því að leggja niður borgarlínu hugmyndir áður en það verður um seinan. Það væri fyllilega raunhæft að koma á slíku kerfi sjálfakandi samgöngum öllum til hagsbóta fyrir 2030.

Allt yrði þetta að sjálfsögðu knúið með grænni orku okkar og Ísland ætti að setja sér það markmið að verða fyrsta 100% sjálfbæra landið í heiminum sem er knúið alfarið áfram á hreinni orku. Slík yfirlýsing og stefna ein og sér mundi fara langt með að stórefla ímynd landsins.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Að lokum þá er óhjákvæmilegt að velta gervigreindinni fyrir sér þegar horft er til framtíðar og áhrif þess á ferðaþjónustuna. Það er stutt í það að allar myndir og textar verða meir eða minna tengd gervigreind og við öll komin með okkar persónulega „einkaþjón“ sem vafrar fyrir okkur um alnetið í leit að áhugaverðustu stöðunum sem henta hverjum og einum best. Slíkur ofurþjónn mun fletta í gegnum allar staðreyndir, umsagnir og dóma um áfangastaði, lönd, veitingastaði og jafnvel einstaka rétti, tilboð og afslætti og ekki síst vera sérþjálfaður í að gramsa í gegnum hvað er satt og logið þegar allir geta búið til endalausar umsagnir og hágæða myndir af misgóðum og gáfulegum þjónustum sínum. Þetta verður risa kapphlaup sem gæti hæglega gjörbreytt hlutverki milliliða eins og Airbnb og Booking sem í dag eru að rukka 15-20% fyrir sína þjónustu.

Tækifærið en jafnframt samkeppnin um athygli hvers og eins verður engu lík og því enn mikilvægara en áður að ferðaþjónustan standi undir væntingum og helst fari fram úr þeim. Það væri vel þess virði fyrir ferðaþjónustuna að leggjast á eitt og ígrunda með hvaða hætti við getum nýtt gervigreindina til að koma sérstöðu Íslands og einstakri upplifun sem hér er að finna á framfæri. Sem betur fer þá er enn langt í það að gervigreindin og tölvurnar geti endurgert raunverulega upplifun í tíma og rúmi þó að hún muni án efa reyna það líka.

Ég hlakka til að vinna áfram samhliða því frábæra fólki sem starfar í ferðaþjónustunni í dag og hefur sýnt eindæma seiglu og dugnað í að byggja hér upp öfluga atvinnugrein á mettíma. Ég trúi því og treysti að í sameiningu munum við halda áfram að varðveita Ísland og allt það besta sem land og þjóð hefur uppá að bjóða.

Höfundur er framkvæmdastjóri og stofnandi Hvammsvíkur.

Greinin birtist í afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.