Týr rakst nýverið á ítarlega samrunaskrár sem Ölgerðinni bar að skila inn til Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa félagsins á annars vegar Kjarnavörum, sem framleiðir m.a. smjörlíki, kaldar sósur, majónes, síróp og sultur auk þess að vera eigandi ísbúðakeðjunnar Ísbúð Vesturbæjar, og hins vegar Gæðabakstri. Samrunaskrá vegna fyrrnefnds samruna er heilar 55 síður og 46 síður vegna þess síðarnefnda, enda mikið magn upplýsinga sem eftirlitið krefur fyrirtæki um að skila inn í samrunaskrá.

Ýmislegt fróðlegt kemur fram í samrunaskýrslunum, m.a. að Kjarnavörur eru með 20-25% markaðshlutdeild á íslenskum sultumarkaði, Ísbúð Vesturbæjar með sömu hlutdeild á ísbúðamarkaði og Gæðabakstur er með 10-15% markaðshlutdeild á brauð og kökumarkaði.

***

Ætla má að Samkeppniseftirlitið muni sem áður taka sér drjúgan tíma í að fara yfir þessa samruna og líklegra en ekki að þeir verði færðir í lengri málsmeðferð, þ.e. fasa II. Líkt og kom fram í grein Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur og Maríu Kristjánsdóttur í Viðskiptablaðinu síðasta sumar voru að meðaltali 37% tilkynntra samruna færðir í fasa II hér á landi á tímabilinu 2019-2023. Til samanburðar var hlutfallið tæplega 2% hjá ESB og 3,7% í Noregi.

Mikill áhugi Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, og hans samstarfsfólks á afmörkuðum kimum á matvælaframleiðslumarkaði kann einnig að verða þess valdandi að samrunarnir muni taka mun lengri tíma en raunveruleg þörf er á. Í því samhengi nægir að nefna 130 blaðsíðna skýrslu Samkeppniseftirlitsins um majónesmarkaðinn á Íslandi sem skrifuð var til stuðnings við ákvörðun stofnunarinnar að ógilda kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars, hinum sögufræga majónesframleiðanda. Í daglegu tali er sú merka skýrsla oft kölluð Biblía feita fólksins.

***

Hver veit nema þrjú ný bindi bætist við Biblíu feita fólksins? Eftir að hafa greint majónesmarkaðinn í fyrsta bindinu yrði bindi tvö tileinkað sultumarkaðnum og það þriðja ísbúðamarkaðnum. Umfjöllunarefni fjórða og síðasta bindisins, rúsínan í pylsuendanum, yrði svo ítarleg greining á íslenska sætabrauðsmarkaðnum.

Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. júlí 2025.