Á dögunum kynntu ráðherrar aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem er hvorki meira né minna en í 150 liðum.
Eins og fjallað er um víðar í þessu blaði virðast stjórnvöld hafa gleymt að hafa í huga þau skaðlegu áhrif sem þessar aðgerðir geta haft á íslensk fyrirtæki sem munu mörg hver t.d. neyðast til að kaupa kolefniseiningar og losunarheimildir fyrir tugi milljarða, þrátt fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda sem hlutfall af verðmætasköpun sé hvergi minni en hér á landi.
Það er þó kannski engin furða að einkageirinn hafi gleymst þegar haft er í huga að starfshópurinn sem setti áætlunina saman er eingöngu skipaður ríkisstarfsmönnum.
Annað sem vakti athygli hrafnanna var að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði frá því að landsmarkmið Íslands væru umfram alþjóðlegar skuldbindingar. Á dögunum skilaði starfshópur sem Bjarni setti saman af sér skýrslu um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða.
Næst á dagskrá hjá hópnum hlýtur því að vera að kafa ofan í saumana á gullhúðun alþjóðlegra skuldbindinga af hálfu stjórnvalda hér á landi.
Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.