Þeir sem telja tímabært að íslensk stjórnvöld sæki aftur um aðild að Evrópusambandinu vísa gjarnan í þá breyttu stöðu sem kom upp í alþjóðamálum eftir að Rússar hófu landvinningastríð sitt í Úkraínu.
Viðsjárverðir tímar kalli hreinlega á að stjórnvöld bindist Evrópusambandinu enn nánari böndum.
Þessar raddir fóru að heyrast strax eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Á vorfundi Samfylkingarinnar 2022 sagði Logi Einarsson, þáverandi formaður flokksins og núverandi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra:
„Við Íslendingar njótum þess að tilheyra varnarbandalagi Atlandshafsbandalagsins en það nægir ekki eitt og sér. Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, er enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili í þessu samstarfi lýðræðisríkja.“
Áhugavert er að rifja upp þessi orð Loga og bera þau saman við ummæli sem Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, lét falla í löngu viðtali í hlaðvarpi Bandaríkjamannsins Lex Friedman um þarsíðustu helgi. Friedman spurði Selenskí hvort aðildarríki gæti tryggt öryggi Úkraínu og hvort það gæti orðið að einhvers konar vopnahléi. Forsetinn sagði það útilokað og aðeins bandarísk stjórnvöld gætu veitt Úkraínumönnum öryggistryggingar sem hefðu einhvern trúverðugleika.
Þetta segir meira en mörg orð um hversu litla vigt aðildarríki Evrópusambandsins hafa í raun í öryggis- og varnarmálum. Íslendingar hafa ekkert til Evrópusambandsins að sækja í þeim efnum. Í þessu samhengi má nefna þá staðreynd að Úkraína hefur nú yfir að ráða stærsta her austan Úralfjalla með tæplega milljón manns undir vopnum eða fimmfalt fleiri en næstfjölmennasti herinn sem er sá franski.
Á sama tíma standa stoðir Íslands í varnar- og öryggismálum á traustum grunni. Mikil uppbygging á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli treystir vægi aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu og gildi varnarsamningsins við Bandaríkin enn frekar.
Þá stendur Evrópusambandið frammi fyrir djúpstæðum efnahagsvanda. Stöðnun einkennir hagkerfi stærstu aðildarríkjanna og ekkert bendir til þess að það komi til með að breytast í fyrirsjáanlegri framtíð. Stíft regluverk heldur niðri hagvexti og meðvitaðar ákvarðanir stjórnvalda í ríkjum á borð við Þýskaland um að hreinlega láta af skynsamlegri orkuöflun í þágu loftslagsmarkmiða er hratt og örugglega að ganga af þýskum iðnaði dauðum samanber þróunina í bifreiðaframleiðslu þar í landi. Enginn heldur því fram óhlægjandi að hin sameiginlega mynt hafi gagnast hinum smærri aðildarríkjunum.
Það er í þessu umhverfi sem ráðamenn í nýrri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur telja rétt að dusta rykið af aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Reyndar virðast sumir af forystumönnum stjórnarflokkanna hafa litla sannfæringu fyrir málinu. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ef því verður haldið til streitu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um „framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu“, eins og það er orðað í stjórnarsáttmálanum, fyrir árið 2027 mun það taka athyglina af brýnni úrlausnarefnum á vettvangi íslenskra stjórnmála. Síðasta bjölluat íslenskra stjórnvalda í Brussel kostaði fleiri milljarða og hélt stjórnsýslunni upptekinni meðan hún hafði sannarlega öðrum hnöppum að hneppa.
Reyndar hefur ný og óvænt rödd heyrst í umræðunni um Evrópumálin á liðnum dögum. Sérstakur stefnusmiður og hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar hefur bent á að nú sé rétti tíminn til að sækja um aðild þar sem samningsstaða Íslands sé svo sterk um þessar mundir. Slík skrif lýsa yfirgripsmiklu þekkingarleysi á málinu og geta aldrei talist grundvöllur að vitrænni umræðu.
Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. janúar 2025.