Núvirðing vefst oft fyrir íslenskum blaðamönnum. Í Fréttablaðinu laugardaginn 8. október var viðtal við Jónu Björgu Jónsdóttur hvers eiginmaður glímir við hrörnunarsjúkdóm. Tilefni viðtalsins er glíma þeirra hjóna við Menntasjóð námsmanna sem áður hét Lánasjóður íslenskra námsmanna. Í inngangi viðtalsins segir:

„Blaðamaður komst á snoðir um Jónu í Hagsmunahópi LÍN-greiðenda á Facebook en þar sagði hún stuttlega frá stöðu þeirra hjóna. Því þrátt fyrir að Yngvi viti ekki hvaða dagur er og hafi ekkert fjármálalæsi, er honum enn gert að greiða af námsláni sem hann tók þegar hann var í námi í Kanada árið 1983. Láni sem upphaflega var rétt rúmar fimm milljónir og stendur nú í rúmum níu, þó greitt hafi verið af því samviskusamlega í 33 ár. Jóna hefur farið fram á að lánið verði fellt niður í ljósi að-stæðna en fengið þau svör að ekki sé lagaheimild til þess.“

Þetta vakti töluverða athygli enda er býsna ískyggilegt að greiða af láni í á fjórða áratug án þess að höfuðstóllinn lækki heldur beinlínis hækki. Ískyggilegt að minnsta kosti í huga þeirra sem þekkja ekki núvirðingu. Þannig fengu þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis á Bylgjunni Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á línuna til þess að svara fyrir þetta meinta óréttlæti, en hún sagði það eðlilegt að fólki þætti nóg um.

En aftur að núvirðingunni. Það sem skiptir máli í þessu samhengi að fimm milljónir árið 1983 er ekki það sama og fimm milljónir árið 2022. Og að sama skapi eru níu milljónir árið 2022 ekki það sama og níu milljónir árið 1983. Þannig er núvirði ríflega 5 milljóna króna í ársbyrjun 1983 ríflega 130 milljónir. Og þær níu milljónir sem standa eftir að láninu í dag jafngilda um 300 þúsund krónum árið 1983.

Það sem er auðvitað fréttnæmt við þetta er að árið 1983 hafi verið hægt að fá námslán fyrir 130 milljónir að núvirði, og að námið hafi kostað slíka fjárhæð. Til þess að setja málið í frekara samhengi er áhugavert að skoða fasteignaauglýsingar frá þessum tíma. Þannig var hægt að fá „200 fm fallegt endaraðhús“ í Háagerði á 2,4 milljónir á þessum tíma og „glæsilegt raðhús á tveimur hæðum“ í Garðabæ á um 2,5 milljónir króna.

Þáttastjórnendur báru það undir Áslaugu að finna mætti fjöldann allan af sögum „þar sem fólk situr í þessu námslánafangelsi ævilangt“. Nú er það svo að flestöll námslán, þar með talið hið ofangreinda, eru uppgreiðanleg hvenær sem er, og það er ekki aðeins kostnaðarlaust heldur er veittur allt að 15% afsláttur af höfuðstól sé það gert. Áslaug benti réttilega á að námslán væru hagstæðustu lán sem fyrirfyndust hér á landi, en þess má geta að námslán veitt á 9. áratugnum báru enga vexti.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 20. október 2022.