Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi þingmaður, hefur sennilega haft meiri áhrif á pólitíska umræðu um efnahagsmál en hann og flestir aðrir gera sér grein fyrir. Í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um stöðu efnahagsmála á Alþingi haustið 2011 sagði Guðmundur:
„Þá verðum við líka að fara að viðurkenna að það er risastór bleikur fíll í þessu herbergi og hann er að rústa hérna allt saman og það er krónan.“
Frá því að þessi orð voru látin fjalla hefur fjöldinn allur gripið til sömu líkingar þegar kemur að umræðum um efnahagsmál. Flestir í þessum hópi virðast eiga það sameiginlegt að hafa álíka mikinn skilning á efnahagsmálum og stjórn peningamála og á íslenskri tungu og orðtökum.
Gegnum tíðina hefur stundum verið rætt um að sjá bleika fíla þegar átt er við alvarleg fráhvörf af mikilli áfengisneyslu. Margir tala um fílinn í herberginu þegar átt er við aðkallandi vanda sem enginn þorir að takast á við. Fílar eiga helst ekki heima í postulínsbúðum eins og orðtakið gefur til kynna enda eru þeir þar sem naut í flagi.
Öllu þessu er grautað saman í eitt þegar talað er um bleika fílinn í herberginu og eini þráðurinn gegnum það allt er að vandinn sem er verið að lýsa hefur ekkert með krónuna eða aðra gjaldmiðla að gera. Tilraun er gerð til þess að greina efnahagsmál með óskýra hugsun að leiðarljósi.
Konráð G. Guðjónsson hagfræðingur skrifaði gagnlega grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku þar sem hann fjallar um kjarasamningana sem gerðir voru á almenna markaðnum í fyrra. Ástæða skrifanna eru fullyrðingar sem hafa heyrst að undanförnu að þetta hafi alls ekki verið góðir kjarasamningar enda samið um meira en atvinnulífið getur staðið undir. Konráð færir ágætis rök fyrir þeirri skoðun að samningarnir hafi ekki verið alslæmir og hefðu sannarlega geta orðið verri þegar horft er til sögulegrar reynslu.
En eins og Konráð bendir á í greininni þá hafa launahækkanir á Íslandi undantekningalaust verið umfram svigrúm síðustu 30 ár. Að meðaltali hafa launahækkanir verið ríflega 2% meiri en sem stenst verðbólgumarkmið, og það hafi augljóslega leitt til þess að verðbólga hefur verið 2% meiri en sem nemur verðbólgumarkmiði.
Í lok greinar sinnar segir Konráð:
„Hefði verið hægt að gera betur? Núverandi vinnumarkaðslíkan býður varla upp á aðra niðurstöðu. Kerfið er einfaldlega hannað þannig að laun hækka of mikið sem leiðir sífellt til of mikillar verðbólgu og óþolandi vaxtastigs. Ef ekkert breytist munu laun halda áfram að hækka of mikið sem mun, líkt og alltaf, leiða til áframhaldandi verðbólgu, hárra vaxta og lakari samkeppnishæfni. Sé stjórnmálamönnum alvara með tali um efnahagslegan stöðugleika og lágt vaxtastig þá ganga þeir tafarlaust í að breyta þessu í eitt skipti fyrir öll.“
Niðurstaða Konráðs er skynsöm. Sveiflur og óstöðugleiki í íslensku efnahagskerfi hefur ekkert með gjaldmiðlamál að gera heldur er rót vandans fyrst og fremst að finna í hand-
ónýtu vinnumarkaðslíkani. Mikilvægt er að hafa þetta hugfast nú þegar kennarar gera sig líklega til þess að sprengja upp þá sátt sem náðist í síðustu kjarasamningum með hótunum að setja þjóðfélagið á hliðina með verkföllum. Ef það væru ekki kennarar þá væri það önnur stétt sem væri að í þann mund að setja allt á hliðina – vinnumarkaðslíkanið hreinlega leiðir endurtekið til þessarar stöðu.
Brýnt er að taka á þessum aðkallandi vanda og það er líklegra til árangurs en að rugla saman orðtökum og kenna krónunni um allt og haga sér þannig „eins og fíll í sem stingur höfðinu í sandinn“.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 5. febrúar 2025.