Hrafnarnir áttu sína fulltrúa á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í pallborðsumræðum með fulltrúum stjórnmálaflokkanna var eftir því tekið hversu mikið Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksmaður Samfylkingarinnar, þurfti að vera í símanum.

Hann stóð við enda pallborðsins og fékk því síðastur spurningar frá Stefáni Einari Stefánssyni, sem stýrði umræðum. Veltu margir fyrir sér hvort hann væri að ráðfæra sig við vin eins og stundum er gert í spurningaþáttum í stjórnvarpinu þegar menn standa á gati.

Hafi það verið raunin finnst hröfnunum líklegt að Þórður Snær Júlíusson, hugmyndafræðingur flokksins, hafi verið á hinum endanum. Handbragð hans má sjá víða þegar kemur að Samfylkingunni og sjávarútvegsmálum. Þannig metur gervigreindin það sem svo að Þórður hafi skrifað fjöldann allan af ræðum sem þingmenn flokksins hafa flutt á Alþingi að undanförnu enda eru þær keimlíkar greinum sem Þórður hefur skrifað að undanförnu.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. apríl 2025.