Engum blöðum er um það að fletta að lestur dagblaða hefur farið dvínandi undanfarin ár. Það er ekki hægt að mótmæla þessu því kannanir sýna einfaldlega að dagblaðalestur á undir högg að sækja — ekki bara á Íslandi heldur víðs vegar um heim. Netið og snjallsímar hafa gjörbreytt fjölmiðlalandslaginu. Hér áður fyrr gátu menn setið á skúbbum í nokkra daga en í dag er það varla hægt. Hraðinn er orðinn svo mikill og netmiðlarnir svo margir að það að ætla að sitja á góðu skúbbi er eins og að reyna að fela fíl á bak við birkihríslu.
Með netmiðlum varð bylting í fjölmiðlun því nú er hægt að nálgast nýjustu fréttir nánast hvar sem er og hvenær sem er. Það er meira að segja 3G samband uppi á Langjökli. Á sama tíma og hraðinn er einn helsti kostur netmiðla er það líka einn helst ókosturinn. Fjölmiðlar vilja vera fyrstir með fréttina. Þannig hefur það alltaf verið en nú á tímum netsins hefur glugginn minnkað. Tímaramminn til að vinna fréttir hefur þrengst svo mikið að nú eru menn í kapphlaupi við mínútur. Það gefur augaleið að slíkt kapphlaup getur komið niður á gæðum frétta. Sem betur fer eru til netmiðlar sem kafa dýpra og gera það vel en það er samt undantekning frá reglunni.
Dauðdagi dagblaðanna hefur verið hægari en margir spáðu og óhætt er að segja að það hafi komið mörgum á óvart. Framtíð prentmiðla liggur í dýptinni og sérhæfingunni. Ef þeir einbeita sér að þessu tvennu geta þeir lifað áfram.
Sem ríflega fertugur blaðamaður á prentmiðli er ég auðvitað hlutdrægur því ég ólst upp við dagblaðalestur og pípureyk í eldhúsinu. Mér finnst lyktin af dagblöðum góð, nánast lokkandi og tilfinningin að fletta töfrandi. Inn í þessa upplifun blandast vissulega ákveðin persónuleg nostalgía. Þó hef ég heyrt marga tala í svipaða veru. Því var haldið fram að geisladiskurinn myndi drepa vínylinn. Nú eru tónlistarveitur að jarða geisladiskinn og vínyllinn að rísa eins og Fönix upp úr öskunni. Þegar þú setur vínylplötu á fóninn þá gerirðu það til að hlusta á verkið í heild. Dagblöð eru vínylplötur framtíðarinnar — þetta er bæði spádómur og óskhyggja.