Umræðan sem fór í kjölfarið af stað í fjölmiðlum í kjölfar þess að verðbólga mældist 6,3% í júlí og hækkaði um 0,5% frá fyrri mánuði var fyrirsjáanleg. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, lýsti í viðtölum yfir vonbrigðum með að verðbólgan hafi ekki haldið áfram að hjaðna, kallaði eftir lækkun stýrivaxta og sagði fyrirtæki reyna að bjarga sér með því að fleyta kostnaðarverðshækkunum út í verðlagið. Hann minnti á endurskoðunarákvæði í kjarasamningum sem tekur gildi í byrjun næsta árs ef verðbólga verður ekki farin niður fyrir 4,9%.

Umræðan sem fór í kjölfarið af stað í fjölmiðlum í kjölfar þess að verðbólga mældist 6,3% í júlí og hækkaði um 0,5% frá fyrri mánuði var fyrirsjáanleg. Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, lýsti í viðtölum yfir vonbrigðum með að verðbólgan hafi ekki haldið áfram að hjaðna, kallaði eftir lækkun stýrivaxta og sagði fyrirtæki reyna að bjarga sér með því að fleyta kostnaðarverðshækkunum út í verðlagið. Hann minnti á endurskoðunarákvæði í kjarasamningum sem tekur gildi í byrjun næsta árs ef verðbólga verður ekki farin niður fyrir 4,9%.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, tjáði sig einnig um stöðu mála. Hann kvað við kunnuglegan tón og sagði Seðlabankann með stefnu sinni vera löngu búinn að tapa baráttunni við verðbólguna. Háir stýrivextir væru að fóðra verðbólguna. Þessi kenning Vilhjálms stríðir gegn öllum viðurkenndum hagfræðikenningum og á það hefur margsinnis verið bent. Þá dustaði hann rykið af samsæriskenningum um að viðskiptabankarnir og fjármálageirinn sleiki út um í hávaxtaumhverfinu. Þessi kenning Vilhjálms hefur líkt og sú fyrri verið hrakin enda var arðsemi bankanna á fyrri hluta þessa árs ekkert til að hrópa húrra fyrir. Loks kallaði hann eftir því að seðlabankastjóra yrði skipt út eða að hann myndi a.m.k. „taka upp nýtt leikkerfi“.

Miðað við málflutning formannsins má ætla að hann vilji feta í fótspor Recep Erdogan, forseta Tyrklands, og fara tyrknesku leiðina, en forsetinn aðhyllist eins og þekkt er ekki viðteknar kenningar um stjórn peningamála. Hann telur að stýrivaxtahækkanir gagnist ekki í baráttunni fyrir verðstöðugleika. Þvert á móti er hann sannfærður um lágir vextir leiði til verðstöðugleika. Afleiðingar þeirrar stefnu hefur verið fyrirsjáanleg: gengi tyrkneska gjaldmiðilsins hefur hríðfallið og óðaverðbólga geisað um langt skeið.

Nokkuð kom á óvart að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var þögull sem gröfin eftir nýjustu verðbólgutölur. Er hann steig loks fram var hann sem fyrr með allt á hornum sér. Hann boðaði til mótmæla og sagði stjórnmálin, bankakerfið og fyrirtækin hafa brugðist fólkinu í landinu. Verðbólga og háir vextir eru sem sagt öllum nema verkalýðshreyfingunni og opinberu starfsfólki að kenna.

Þá ítrekaði Ragnar Þór fyrri hrakspár um fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila og stóraukið atvinnuleysi. Hann kallaði eftir því að verkalýðshreyfingin fái fólkið til að „rísa upp“ og þrýsta á að boðað verði til kosninga. Skemmst er frá því að minnast þegar Ragnar reyndi að setja nýtt met í lýðskrumi í fyrravor. Þá boðaði hann alla þá sem hafa „fengið nóg af einhverju“ á mótmæli við Austurvöll. Um fjörutíu manns svöruðu kallinu.

Hringavitleysan sem fer af stað eftir að bakslag kemur í baráttuna við verðbólgudrauginn eða peningastefnunefnd ákveður að lækka ekki vexti er óneitanlega farin að minna á kvikmyndina Groundhog day, eða Dag múrmeldýrsins. Fjölmiðlar leita fyrst viðbragða verkalýðsleiðtoga við slíkum fregnum sem alltaf bregðast eins við. Af viðbrögðum þeirra að dæma mætti ætla að neyðarástand ríki í íslensku þjóðfélagi en þegar nánar er að gáð er staðan heilt yfir ágæt.

Flestir sem hafa haft fyrir því að kynna sér gang mála átta sig á því að verkalýðshreyfingin hefur kynnt undir verðbólgu með því að knýja fram verulegar launahækkanir á undanförnum árum. Það hefur ríkisstjórnin einnig gert með stórauknum ríkisútgjöldum. Fyrirsjáanlega hafa fyrirtæki neyðst til að bregðast við stórauknum launakostnaði með verðhækkunum, auk þess sem ýmsar aðrar kostnaðarhækkanir hafa dunið á þeim.

Viðskiptablaðið hvetur verkalýðsforingja að taka ábyrgð á eigin gjörðum, í stað þess að afvegaleiða umræðuna með því að gera einstaka fyrirtæki eða atvinnugreinar að blóraböggli. Í ljósi sögunnar verður þó að teljast afar ólíklegt að sú verði raunin.