Grænland er á allra vörum þessa dagana. Ástæðan er að Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir fyrir nokkru að bandarísk stjórnvöld ættu að sölsa undir sig Grænland, með góðu eða illu.
Síðan þá hafa helstu fjölmiðlar heims fjallað um þetta merkilega land og þau miklu auðæfi sem þar er að finna og mikilvægu legu landsins í samhengi varnar- og öryggismála. Breska blaðið Financial Times fjallaði meðal annars um málið um helgina. Sú umfjöllun þótti sæta svo miklum tíðindum innan veggja Ríkisútvarpsins að stjórnendur morgunútvarpsins leituðu í efstu hilluna í Efstaleitinu eftir álitsgjafa til að fjalla um málið.
Veiðiferðin sem aldrei var farin
Sem kunnugt er Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar, ekki eingöngu doktor í fjármálum heldur einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar í málefnum Grænlands. Viðtalið við Ásgeir í morgun var kostulegt. Þvottabirnir komu ekki við sögu en hins vegar sagði doktorinn okkur frá því þegar Donald Trump yngri ætlaði að veiða sauðnaut með lásboga á Grænlandi fyrir tæpum áratug síðan. Ekkert varð úr þeirri veiðiferð. Það gengur svona eins og Billy Pilgrim hefði sagt.
Eins og svo oft áður var ekki komið að tómum kofanum hjá Ásgeiri. Upplýsti hann meðal annars hlustendur um að það væri eitthvað fyrirtæki sem væri skráð á markað í London sem hefði einhver námuréttindi á Grænlandi. Ekki nóg með það þá minnti Ásgeir að fyrirtækið væri stýrt af íslenskum jarðfræðingi. Gefum Ásgeiri orðið:
„Svo bendi ég á að það er fyrirtæki á London-hlutabréfamarkaðnum sem á mjög mikil námuréttindi í Grænlandi, eða samninga um það við dönsku/grænlensku landstjórnina, og því fyrirtæki er meira segja stýrt af íslenskum jarðfræðingi ef ég man rétt en ég man nú ekki alveg nafnið á því.”
Hrafnarnir þora ekkert að fullyrða um hugrenningar doktorsins en þeim þykir ansi líklegt að þarna eigi hann við Amaroq og Eld Ólafsson sem er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins. Amaroq er einnig skráð í Kauphöllina hér á landi og hafa hlutabréf fyrirtækisins verið á öllum vörum undanfarið ár.
Gengið hefur hækkað um tæp sextíu prósent undanfarna tólf mánuði og miklar væntingar eru bundnar við vöxt og viðgang fyrirtækisins. Meðal stærstu hluthafa í Amaroq eru Kvika, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðurinn Gildi, svo einhverjir séu nefndir.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.