Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er lögð áhersla á að skapa fyrirtækjum betra umhverfi í gegnum aukinn stöðugleika í efnahagslífi, lægri vexti og traustari stjórn fjármála ríkisins. Þá hyggjumst við rjúfa kyrrstöðu og stuðla að aukinni verðmætasköpun. Það verður meðal annars gert með því að hagræða í ríkisrekstri og einfalda stjórnsýslu.

Við bíðum ekki boðanna heldur erum strax farin af stað. Fyrsta verkefnið var sameining ráðuneyta og er sú vinna komin á fullt. Nýtt atvinnuvegaráðuneyti tekur til starfa þann 1. mars næstkomandi. Með sameiningu málefna atvinnulífs í eitt ráðuneyti verður til öflugur vettvangur verðmætasköpunar á Íslandi.

Fjöldi verkefna er kominn á dagskrá og fleiri á leiðinni. Einföldun stjórnsýslunnar er í forgangi og er starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri þegar byrjaður að rýna meira en 3.000 tillögur frá landsmönnum. Viðbrögð Seðlabankans við þessum fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru að lækka vexti sem er okkur öllum fagnaðarefni. Bankinn gerir nú ráð fyrir því að verðbólga verði að meðaltali 3,6% á þessu ári.

Það eru blikur á lofti

Viðskiptaþing í ár hefur yfirskriftina „Forskot til framtíðar“ og leggur áherslu á framtíðarsýn um hvernig Ísland getur skapað sér nýtt forskot til framtíðar. Ég fagna þeirri bjartsýni sem forsvarsmenn Viðskiptaráðs lýsa með þessari yfirskrift en minni á að það eru blikur á lofti sem við verðum að huga að um leið og við pússum sólgleraugun fyrir komandi blíðviðri.

Á alþjóðavettvangi eru væringar, þar sem daglega berast fréttir af nýjum hugmyndum um innflutningstolla í milliríkjaviðskiptum. Þetta eru skýr merki um þróun í átt frá alþjóðavæðingu til þrengri tollabandalaga. Slíkt hefur neikvæð áhrif á alþjóðlegar virðiskeðjur, eykur kostnað við milliríkjaviðskipti og dregur úr alþjóðlegum fjárfestingum.

Nýr samkeppnisáttaviti Evrópu

Í september síðastliðnum kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, skýrslu um samkeppnishæfni Evrópu. Óhætt er að segja að sú skýrsla er svört.  Draghi dregur fram að framleiðni og hagvöxtur í Evrópu hafi dregist aftur úr Bandaríkjunum og Kína og kallar á metnaðarfull markmið og skýrar aðgerðir til þess að snúa þessari stöðu við.

Í kjölfar skýrslunnar gaf Evrópusambandið núna í lok janúar út skýrslu um Áttavita samkeppnishæfni sambandsins  (EU Competitiveness Compass) þar sem meðal annars eru lögð fram eftirfarandi leiðarljós til þess að auka samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja til komandi ára:

  1. Auðvelda fyrirtækjum starfsemi með betri umgjörð.
    Þar á meðal er markmið um að minnka kostnað fyrirtækja af stjórnsýslu um 25-35%.
  2. Efla framleiðslu á grænni orku. Tryggja um leið að stefnt verði áfram að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til 2040.
  3. Efla framleiðni með stafrænum umskiptum. Áhersla á öfluga fjárfestingu í gervigreind.
  4. Aukið fjármagn til rannsókna og nýsköpunar. Þar sem sérstök áhersla verður lögð á fá afmörkuð verkefni.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum sýna á spilin

Á sama tíma vestanhafs hafa ný stjórnvöld tekið við og þegar lagt fram drög að verkefnum sem þau telja til þess fallin að auka samkeppnishæfni Bandaríkjanna. Helst höfum við tekið eftir yfirlýsingum um nýja tolla sem eiga að styðja við innlenda framleiðslu og minnka viðskiptahalla. Fleiri verkefni sem eiga að styðja við aukna samkeppnishæfni hafa verið kynnt og eru þrjú þeirra sérstaklega umhugsunarverð svo ekki sé meira sagt:

Bandaríkjaforseti hefur undirritað tilskipun sem dregur úr varnöglum gagnvart þróun á gervigreind. Á næstu 180 dögum verður unnin aðgerðaráætlun um að styrkja forystu Bandaríkjamanna í greininni meðal annars með 500 milljarða dala fjárfestingarátaki undir heitinu „Stargate project“.

Grænt ljós hefur verið gefið á stóraukna olíu- og gasvinnslu, þar á meðal á viðkvæmum svæðum á norðurslóðum. Samhliða því hefur verið slakað á umhverfiskröfum og því lýst yfir að orkumál verði héðan í frá mótuð af hagvaxtarsjónarmiðum fremur en loftslagsmarkmiðum.

Stjórnvöld stefna á mikinn niðurskurð í opinberri stjórnsýslu með það að markmiði að auka skilvirkni og draga úr ríkisafskiptum. Áætlunin felur í sér mikla fækkun starfa í opinbera geiranum og aukna miðstýringu á fjárlögum af hálfu forsetans.

Þó margir dragi hugmyndafræði stjórnvalda í Bandaríkjunum í efa, og það með réttu, þá er þetta okkar stærsta viðskiptaland og mikilvægt fyrir okkur að fylgjast náið með þróun mála þar, ekki síst hvað varðar samkeppnishæfni atvinnulífs.

Þessi dæmi frá Evrópu og Bandaríkjunum sýna okkur að umræðan um samkeppnishæfni á alþjóðavettvangi er lifandi og síkvik.

Ný atvinnustefna fyrir Ísland

Til þess að sækja fram mun ríkisstjórnin vinna nýja atvinnustefnu fyrir Ísland sem verður leidd af forsætisráðherra með sterkri aðkomu frá öðrum ráðuneytum og öflugu samtali við hagsmunaaðila í landinu.

Atvinnustefna eða iðnaðarstefna, lýsir því hvaða áherslur lönd setja í forgang til þess að bæta lífsgæði. Þær eru stundum gagnrýndar fyrir tilraunir stjórnvalda til þess að „velja sigurvegara“ þegar ákveðnar atvinnugreinar fá stuðning á kostnað annarra greina.

Nútíma atvinnustefna hugar þó ekki einungis að ríkisstuðningi við einstakar atvinnugreinar heldur að því að samtvinna viðskiptastefnu og forgangsraða fjárfestingum til þess að efla samkeppnishæfni og lífskjör. Dæmi um þetta má sjá bæði í Kína og Bandaríkjunum og Evrópa er að feta sömu leið með upptöku á áttavita samkeppnishæfninnar.

Í síðustu viku sat ég fund með evrópskum samstarfsráðherrum mínum um samkeppnishæfni þar sem öflugur samhljómur var á meðal allra fundarmanna um að snúa vörn í sókn. Samkeppnisáttavitinn mun skapa öflugt leiðarljós á þeirri vegferð og ljóst að við Íslendingar þurfum að stilla okkar áttavita í sömu átt til þess að viðhalda samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Regluverk okkar og samkeppnissjóðir munu þurfa að laga sig að þessu nýja umhverfi til þess að við getum gripið þau tækifæri sem það mun hafa í för með sér.

Ég hlakka til að mæta til leiks á Viðskiptaþingi og eiga gott samtal við atvinnulífið um samkeppnishæfni Íslands á þessum miklu umbrotartímum.

Höfundur er atvinnuvegaráðherra.