Hrafnarnir velta fyrir sér hvers Rósa Guðbjartsdóttir og íbúar hennar í Hafnarfirði eiga að gjalda. Erlend verslunarkeðja dælir 110 þúsund lítrum af olíu út í holræsakerfi bæjarins og endar hún út á sjó á friðlýstu svæði álfabæjarins. Þetta telur Sigrún Ágústsdóttir forstjóri og hennar fólk í Umhverfisstofnun ekki alvarlegra en svo að tuttugu milljóna króna sekt sé talin við hæfi. Velta Costco á Íslandi er á þriðja tug milljarða. Sektin sem Íslandsbanki fékk frá Seðlabankanum fyrir að gleyma að gera áhættumat og taka upp nokkur símtöl auk þess sem flokkun fjárfesta hefði mátt vera betri er sextíufalt hærri.

Hrafnarnir telja sleifarlag Íslandsbanka í alla staði ámælisvert en að sama skapi fá þeir ekki séð að heilsu landsmanna hafi stafað ógn af – nema kannski andlegri heilsu eins og komið hefur á daginn. Það sama verður ekki sagt um olíuleka.

Það vekur einnig athygli hrafnanna að leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar þaga þunnu hljóði og það sama gildir um Breka Karlsson hjá Neytendasamtökunum. Að ekki sé minnst á stjórnmálamennina.

Huginn og Muninn er einn af skoðanapistlum Viðskiptablaðsins