Í starfi mínu hef ég oft liðsinnt við „sprungubjörgun“ á vinnustöðum. Björgunin kemur til vegna atburða sem hafa neikvæð áhrif á starfsmenn m.t.t. líðanar, viðhorfa, hegðunar og starfsgetu. Þannig er starfsfólk jafnvel komið á endastöð, farið að missa trú á sjálfu sér og vinnustaðnum og sér ekki fyrir endann á stöðunni. Þá eru stjórnendur jafnvel farnir að tala um hversu erfitt sé að starfa með „þessu fólki“ og samskipti orðin slæm.
Svona staða kallar á inngrip þar sem öll verkærin í breytingarkistunni eru notuð en ef vel heppnast til getur vinnan gefið góða ávöxt. Setjum þetta í svolítið ýkt samhengi.
Sjáðu fyrir þér hóp ferðamanna um hálendið. Þar eru jöklar, fjöll og margbrotið landslag sem mikilvægt er að fara í gegnum af gát. Framan af er hópurinn samhentur og ferðin gengur vel, en svo gerist óhappið og hluti ferðamannanna fellur ofan í jökulsprungu. Þau sem eru ofan í sprungunni eru ekki lengur í ferðalagi, þau eru í hættu og þeirra þarfir eru allt aðrar en áður. Þau þurfa ekki að vera minnt á fjallstindinn og leiðina, þeim er í raun alveg sama um hann. Það þarf ekki að segja þeim að „leggja meira á sig“, þau geta það ekki í þessum aðstæðum. Þau vilja aftur á móti finna að þau eru ekki að falla dýpra og að einhver muni bjarga þeim upp.
Það væri skrítið að horfa á leiðsögumanninn verða pirraðan út í „þetta fólk“, tala um hversu erfið samskiptin við þau séu og að þau eigi bara að reyna betur. Aftur á móti væri eðlilegt að sjá leiðsögumanninn lesa aðstæður, átta sig á að hann er ekki lengur að leiðsegja heldur bjarga. Ef hann býr yfir færni til að framkvæma sprungubjörgun þá gerir hann það án hiks, ef hann kann það ekki – þá kallar hann á hjálp sérfræðinga. Sé vel staðið að björgun er jafnvel hægt að halda ferðinni áfram og hópurinn styrkist við þessa reynslu. Sé hún misheppnuð er staðan allt önnur.
Þetta var ýkt dæmi og stutt en birtingarmyndin er hjálpleg til að setja hluti í samhengi. Auðvitað eru hlutir ekki svona svartir og hvítir en skilaboðin eru skýr: Ekki benda á fjallstindinn þegar hópurinn þarf björgun.
Ágúst Kristján Steinarsson er stjórnunarráðgjafi í breytingum hjá Viti i ráðgjöf.