Í dag taka gildi lög nr. 15/2018 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Þar með öðlast reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár gildi samkvæmt íslenskum lögum. Sú reglugerð hefur einnig verið kölluð „ European Market Infrastructure Regulation “ eða „ EMIR “.
EMIR er ætlað að koma í veg fyrir þann glundroða sem einkenndi OTC-afleiðumarkaðinn í fjármálakreppunni sem reið yfir heimsbyggðina fyrir áratug síðan. OTC-afleiður eru óskráðar afleiður (e. Over-the-Counter derivatives ) eða þeir afleiðusamningar sem ekki eru í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði og fara því viðskipti með slíka samninga fram utan þeirra eða „yfir búðarborðið“ eins og enska heitið gefur til kynna. Tvennt er haft að leiðarljósi í EMIR reglugerðinni: stöðustofnunarskylda á þær tegundir OTC-afleiðna sem hafa mesta veltu annars vegar og tilkynningarskylda allra afleiðuviðskipta hins vegar.
Áhættan endurmetin reglulega
Stöðustofnun (e. clearing ) er ferli sem felur í sér að stofna þær stöður sem myndast við afleiðuviðskipti. Eðli afleiðuviðskipta er að uppgjör þeirra fer fram síðar, allt frá nokkrum dögum upp í mörgum árum eftir að þau eru gerð. Fram að því ber hvor aðili sem að samkomulaginu kemur áhættu gagnvart hinum á því að hann standi við sínar skuldbindingar á samningstímanum og þegar að uppgjöri kemur. Stöðustofnun á sér stað hjá miðlægum mótaðila semw gerist milliliður í OTC-afleiðuviðskiptum og verður því kaupandi gagnvart seljanda og seljandi gagnvart kaupanda, þar sem það á við. Við stöðustofnun er mynduð staða í bókum miðlægs mótaðila vegna OTC-afleiðusamnings, verðmæti hans uppreiknað og veðtryggingar vegna stöðunnar greiddar til miðlæga mótaðilans. Áhættan af samningnum er svo endurmetin reglulega og kröfur um tryggingar sömuleiðis til þess að lágmarka áhættuna. Í dag eru sextán miðlægir mótaðilar með starfsleyfi í Evrópu, en afar ólíklegt verður að teljast að miðlægur mótaðili verði á einhverjum tímapunkti starfræktur á Íslandi sökum smæðar markaðar og kostnaðar við slíkan rekstur.
Samkvæmt EMIR verður skylda að stöðustofna ákveðnar tegundir OTC-afleiðusamninga og ákveður Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin ( ESMA ) hvaða flokkar OTC-afleiðna það verða. Enn sem komið er nær þessi skylda aðeins til mismunandi tegunda vaxtaskiptasamninga í sjö myntum, auk skuldatrygginga í evrum. ESMA mun síðar bæta í þetta safn stöðustofnunarskyldra OTC-afleiðusamninga. Þeim mótaðilum í afleiðuviðskiptum sem eru stöðustofnunarskyldir er skipt upp í fjóra hópa. Þar eru fyrstir og fremstir stöðustofnunaraðilarnir (e. clearing members ) sem eru í beinu samningssambandi við miðlæga mótaðilann. Því næst eru það stærri fjárhagslegir mótaðilar (e. financial counterparties ) og einnig smærri fjárhagslegir mótaðilar. Þar í flokki eru t.d. bankar og önnur fjármálafyrirtæki. Að lokum eru það svo ófjárhagslegir mótaðilar (e. non-financial counterparties ) sem eru yfir tilgreindum fjárhæðarmörkum í samanlögðu undirliggjandi virði OTC-afleiðusamninga, að frátöldum OTC-afleiðusamningum þeirra sem ætlað er að verja þá fyrir markaðsáhættu. Þessi mörk eru á bilinu einn til þrír milljarðar evra, allt eftir því um hvaða flokk afleiðna ræðir. Tímasetningar stöðustofnunarskyldu hvers hóps eru mismunandi eftir því um hvaða flokk mótaðila og einnig hvaða flokk afleiðna er að ræða. Íslensk fjármálafyrirtæki myndu falla undir flokk smærri fjárhagslegra mótaðila en þeir verða stöðustofnunarskyldir 21. júní 2019 samkvæmt afleiddri reglugerð EMIR um stöðustofnunarskylduna.
EMIR gerir einnig kröfur um aukna áhættustýringu vegna OTC -afleiðusamninga sem ekki eru stöðustofnaðir miðlægt. Þær varða daglega bókfærslu markaðsvirðis, tímanlega staðfestingu afleiðusamnings, örugg skipti á tryggingum, ferla til lausnar ágreinings, reglulega afstemmingu eignasafns og skyldu til samþjöppunar eignasafns við ákveðin skilyrði. Sú skylda mun snerta öll íslensk fyrirtæki í afleiðuviðskiptum hvort sem þau tilheyra flokki fjárhagslegra mótaðila eða ófjárhagslegra.
Afleiðuviðskipti tilkynningaskyld
Öll afleiðuviðskipti verða tilkynningarskyld samkvæmt EMIR eftir að reglugerðin tekur gildi. Það hefur í för með sér að íslenskir aðilar þurfa að tilkynna um gerð allra afleiðusamninga eftir 1. október næstkomandi til sérstakra afleiðuviðskiptaskráa. Einnig þarf að tilkynna um allar breytingar á skilmálum samnings, framlengingar og uppsögn. Í dag eru átta afleiðuviðskiptaskrár með starfsleyfi frá ESMA en mótaðilum í afleiðuviðskiptum er frjálst að velja þá skrá sem þeir vilja. Tilkynningarskyldan nær til allra lögaðila sem eru mótaðilar að afleiðuviðskiptum, en EMIR gerir ekki greinarmun þar á OTC-afleiðum eða þeim sem eru í viðskiptum á skipulegum markaði. Í undantekningartilvikum getur tilkynningarskylda EMIR náð til einstaklinga en það eru þá einstaklingar sem stunda viðskiptastarfsemi (e. economic activity ) sem varðar framboð á vöru og þjónustu. Tilkynningarskyldan er afturvirk og er því skylt að tilkynna um þá afleiðusamninga sem voru virkir þann 1. júlí 2017, eða stofnað var til milli 1. júlí 2017 og 1. október 2018. Frestur til að skila afturvirkum tilkynningum til afleiðuviðskiptaskrár verður til 12. febrúar 2019.
Frekari upplýsingar um EMIR er að finna á vefsvæði Fjármálaeftirlitsins um reglugerðina: www.fme.is /eftirlitsstarfsemi/ emir . Fyrirspurnum til Fjármálaeftirlitsins varðandi EMIR skal beint á [email protected] .
Höfundur er sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu.