Hrafnarnir sáu að Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, hefur gefið kost á sér til varaformennsku Samfylkingarinnar en kosið verður embættið á landsfundi í lok október. Sem kunnugt er þá kom Guðmundur Árni inn sem ferskur stormsveipur í íslensk stjórnmál í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga og ljóst má vera af framboðinu að dæma að hann ætlar að láta enn frekar að sér kveða. En ekki er útilokað að Guðmundur fái mótframboð. Þannig hafa hrafnarnir tekið eftir að Sighvatur Björgvinsson hefur verið að stíga fram á ritvöllinn að undanförnu og vill með því væntanlega minna á sig. Þá segja heimildarmenn hrafnanna að Rannveig Guðmundsdóttir sé að velta málum fyrir sér. Hvað sem verður er ljóst að mikil endurnýjun er fyrirsjáanleg í forystusveit Samfylkingarinnar.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 20. október.