Í Viðskiptablaðinu þann 14. september og síðar á vb.is þann 19.september skrifar „Óðinn“ grein sem ber heitið Eyðilegging og sköpun verðmæta. Þar er fjallað um ýmis vandamál og álitaefni við mat á landsframleiðslu og hagvexti. Margt í þessari grein er villandi og sumt alrangt. Nú veit ég ekki hver „Óðinn“ er en oftlega hef ég á vb.is lesið greinar hagfræðilegs efnis eftir þennan sama “ Óðinn“ mér til fróðleiks. Það varð mér því nokkuð áfall að þessi sami „Óðinn“ skyldi af miklum þekkingarskorti fjalla um efni sem ég tel mig þekkja nokkuð vel en það er mat á landsframleiðslu og hagvexti.

Í nokkra áratugi vann ég hjá Þjóðhagsstofnun og síðustu starfsár mín hjá Hagstofunni við mat á landsframleiðslu sem „Óðinn“ telur nú tóma vitleysu. Ekki er sérstaklega vikið að íslenskum þjóðhagsreikningum í greininni.  „Óðinn“ telur þessar tölur væntanlega jafn vitlausar í öllum löndum! Hann er þó ekki einn um þetta því iðulega má sjá hagfræðimenntaða menn ræða um landsframleiðslu og þjóðhagsreikninga í hálfkæringi en nota svo þessar sömu tölur til túlkunar í löngu máli á þróun efnahagsmála og tala jafnvel um breytingu þegar 7,2% hagvöxtur reynist í 7,4%, eins og nýleg dæmi sýna!

Nú er það svo að landsframleiðslan og árlegur vöxtur hennar, þ.e. hagvöxturinn er einn veigamesti þátturinn í mati á árangri efnahagsstarfseminnar frá einum tíma til annars en eftir lestur greinarinnar í Viðskiptablaðinu mætti ætla að þetta sé allt saman tóm vitleysa.

Svo er þó alls ekki að mínu mati, heldur er það „Óðinn“ sem fer villur vega. Vissulega eru ótal álitaefni varðandi meðferð ýmissa álitaefna en umfjöllun „Óðins“ er í flestum atriðum afar villandi. Nokkur dæmi:

Flóðin í Houston og Flórida

Í greininni er því haldið fram að enduruppbyggingin á flóðasvæðunum í Karabíska hafinu mælist sem hagvöxtur og afhjúpi gallana við hagvaxtar- og VLF módelin. Hér gleymist það sem réttilega er lýst nokkrum setningum fyrr í sömu grein að sömu krónum verður ekki eytt tvisvar. Fjárhæðin sem fer í uppbyggingu á flóðasvæðunum veldur að líkindum því að minna verður um fjárfestingu eða hernaðarútgjöld á öðrum svæðum í Bandaríkjunum. Verðmætunum er því ráðstafað með öðrum hætti en líklegasta niðurstaðan er að landsframleiðslan og hagvöxtur breytist ekki.

Þegar kemur að sjálfstæðum smáríkjum á svæðinu má vissulega halda því fram að innlendur hluti fjárfestingarinnar gæti aukið hagvöxt en ekki sá hluti sem innfluttur er og það er væntanlega megin hluti uppbyggingarinnar.

Útgjaldamæling

Því er haldið fram í greininni að útgjaldaaðferðin sé algengust við útreikning á VLF. Þetta er sú aðferð sem lengst af hefur verið beitt á Ísland en víðast hvar í Evrópu, og nú einnig hér á landi, er landsframleiðslan metin bæði með því að byggja á útgjaldaaðferð og framleiðsluaðferð og niðurstöður beggja aðferða felldar hvor að annarri þannig að niðurstaðan verður sú sama, hvor aðferðin sem notuð er. Það er því beinlínis rangt að segja að framleiðsla sé ekki metin og allt tal um hitamæli og hitastig i þessu samhengi á ekki við.

Hefur ljós hækkað eða lækkað í verð?

Tekið er dæmi um verð á lýsingu og ljósaperum og tölvum. Hér er því haldið fram að við mat á landsframleiðslu sé með öllu horft fram hjá gæðabreytingum og „Aðeins horft á verðmiðann.“ Þetta er alrangt. Vissulega koma upp ýmis álitamál við mat á verð- og gæðabreytingum á vöru og þjónustu og deila má um það hvernig til hafi tekist. En í öllu falli er mikil áhersla lögð á að aðgreina verð- og gæðabreytingar og telja gæðabreytingu til magns og þar með til breytingar á VLF. Tölvur eru gott dæmi. Undanfarna nokkra áratugi hafa tölvur sífellt orðið öflugri, það er gæðin hafa aukist. Gæðin hafa verið metin með hjálp svonefndra „hedonic“ verðvísitalna sem greina verðþróun undirliða þeirra. Þessi gæðabreyting kemur inn í landsframleiðsluna, þvert á það sem haldið er fram í greininni.

Þáttur hins opinbera

Í núgildandi þjóðhagsreikningastöðlum sem flestar þjóðir fylgja er samneyslan sem er einn hluti af útgjöldum hins opinbera verðlögð sem samtala kostnaðarliða þar sem ekkert markaðsverð er tiltækt. Í greininni er varpað fram þeirri spurningu hvort reikna eigi með því að opinber útgjöld skapi hagvöxt. Sitt getur hverjum sýnst í þeim efnum en engu að síður sýna núgildandi aðferðir þau verðmæti sem tekin eru frá og ráðstafað til samneyslu. Að öðrum kosti mætti þá ráðstafa þeim til einhvers annars og samtala einkaneyslu og annarra útgjalda sýnir því í öllu falli þau verðmæti sem til ráðstöfunar eru. En vissulega eru uppi ýmis álitaefni við mat á magnbreytingu í samneyslu og hlut þeirra í hagvexti og ýmis þróunarvinna er í gangi í þeim efnum.

Í greininni er tekið dæmi um ríkisstofnun A sem selur ríkisstofnun B einhverja þjónustu fyrir 200 milljónir króna og því haldið fram að þessar færslur hækki landsframleiðsluna ef þær eru teknar með. Þetta er alrangt. Slíkar færslur nettast út nema að því marki sem einhver virðisauki kanna að eiga sér stað í þessum viðskiptum líkt og almennt á við.

Hvaðan kemur auðurinn?

Í grein „Óðins“ er því haldið fram að ekki eigi að telja með til landsframleiðslu ýmis opinber útgjöld sem ekki teljast til nauðsynlegrar þjónustu. Hér væri áhugvert að vita við hvað er átt en almennt má segja að þjóðkjörnir fulltrúar og sveitarstjórnarmenn taka ákvarðanir um ráðstöfun opinberra útgjalda. Þetta er hluti af þeim verðmætum sem með skattlagningu eru tekin af einstaklingum og fyrirtækjum og þeim ráðstafað „til almannaheilla“. Þessi verðmæti á því ótvírætt að teljast með. Hvort unnt væri að ráðstafa þeim með hyggilegri hætt er annað mál.

Að mati „Óðins“ er stórhættulegt „…að taka bókstaflega þann hluta VLF-jöfnunnar sem kallast einkaneysla. Neysla eykur ekki hagvöxt. Neysla er hins vegar notuð til að mæla hagvöxt.“ Hér er öllu snúið á haus. Vissulega er það rétt að neysla ein og sér eykur ekki hagvöxt en að baki aukinnar neyslu stendur framleiðsla. Þessari framleiðslu er ráðstafað til einkaneyslu, samneyslu eða fjárfestingar. Jafnan gengur ekki upp nema útgjaldauppgjörið sé jafnt framleiðslunni og þannig er það. Allt tal „Óðins“ um það að rugla saman hitamælinum og því sem hann mælir er óskiljanlegt í þessu samhengi.

Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður þjóðhagsreikninga á Þjóðhagsstofnun.