Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur fengið öflugan liðsstyrk í atlögu sinni gegn verðmætasköpun útflutningsgreina landsins.

Nú þegar hún hefur margfaldað veiðigjöldin sem sjávarútvegurinn greiðir – með þeim afleiðingum að óvíst er hvort útgerð á tegundum eins og makríl og ufsa standi lengur undir sér – berast fréttir af því að Evrópusambandið hyggist leggja refsitolla á innflutning kísiljárns frá Íslandi, þrátt fyrir að landið sé hluti af innri markaðnum. Gera má ráð fyrir að þessi aðgerð hafi veruleg áhrif á rekstur Elkem og víðtækar efnahagslegar afleiðingar og setja EES-samninginn í uppnám.

Kristrún og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra virðast telja áformin samrýmast meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar – enda létu þær hjá líða að ræða málið við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, þegar hún heimsótti landið á dögunum. Þó höfðu ráðherrarnir verið upplýstir um áform ESB fyrir heimsóknina. Greinilega þótti mikilvægara að ræða við forsetann um útsýnið yfir Reykjavíkurflugvöll og önnur hápólitísk málefni sem jafnan ber á góma yfir rúnstykkjum.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom 30. júní 2025.