Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra mælti fyrir frumvarpi að nýjum heildarlögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fyrr í þessari viku.
Lagafrumvarpið er með því sósíalískara sem sést hefur á síðari tímum en er þó af nægu að taka í þeim efnum. Lögin eru dulbúin skattahækkun á almenning þar sem þau fela í sér að þau sveitarfélög sem innheimta ekki hæsta leyfilega útsvar er refsað með lægri greiðslum úr Jöfnunarsjóðnum.
Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi í Kópavogi bendir á að þetta þýðir að fyrir hverja krónu sem er skilin eftir í vösum skattgreiðenda í formi lægra útsvars mun ríkið refsa sveitarfélaginu og lækka framlög ríkisins til reksturs grunnskóla í Kópavogi um krónu á móti. Hann segir enn fremur: „Ef bærinn ákveður að spila með vinstristjórninni og er tilbúinn að setja útsvarið í hámarkið horfir þetta öðru vísi við. Þá fær bærinn áfram óbreytt framlög frá ríkinu til þess að mennta börnin okkar – og má gera það sem honum sýnist við afganginn sem verður til við nýju skattana.“
Hröfnunum virðist Eyjólfur innviðaráðherra gera sér enga grein fyrir því hvað hann er að leggja fram en hann sagði þegar hann mælti fyrir málinu að jöfnunarkerfið skerti ekki athafnafrelsi sveitarstjórna eða dragi úr hvötum til umbóta og framfara. Það er einmitt það sem lagabreytingin gerir.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í blaðinu sem kom út 30. apríl 2025.