Umhverfi og umgjörð um atvinnurekstur á Íslandi á að vera hvetjandi fyrir ungt og krafmikið fólk til að stofna rekstur.   Lítil og meðalstór fyrirtæki, í allskyns rekstri, eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi.  Stjórnmálamenn og flokkar geta haft mikil áhrif á hvernig til tekst, en kannski ekki með þeim hætti sem margir þeirra telja.  Með því að hækka skatta á fyrirtækin í landinu minnkar hvatinn til að vera í rekstri eða yfir höfuð, leggja á sig þá ómældu vinnu og fjárhagslegu áhættu sem fylgir því að fara útí rekstur.

Vandi margra stjórnmálaflokka er sá að þeir treysta sér og embættismönnum ríkisins betur til að fara með sjálfsaflafé okkar en okkur sjálfum.

En skattarnir eru ekki nóg.  Eftirlitsiðnaðurinn og reglugerðarfarganið er orðið með þeim hætti að litlar rekstareiningar eiga orðið í erfiðleikum með að uppfylla allar þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.  Gott dæmi er snyrti – og hárgreiðslustofa útá landi.  Þar starfa þrír snyrtifræðingar og tveir hárgreiðslumeistarar.  Fyrir starfsemi af þessarri stærð og umfangi er gerð krafa um þrettán vaska, plús vaskurinn á kaffistofunni.  Fjórtán vaskar fyrir fimm starfsmenn í litlu þjónustufyrirtæki.  Ofaná þessar kröfur bætast síðan reikningar fyrir heimsóknum eftirlitsaðila, sem líklega mæta til að telja vaskana.

Fyrirtæki sem eru með yfir 25 starfsmenn þurfa síðan að innleiða jafnlaunavottun og í flestum tilfellum með milljóna króna ráðgjafakostnaði þar sem þekking á innleiðingu vottunarinnar er ekki fyrir hendi.  Ef fyrirtæki bregðast seint við getur Jafnréttisstofa beitt dagsektum uppá 50.000 kr á dag.

Orkuskortur stendur í vegi fyrir uppbyggingu

Atvinnuuppbygging víða um land situr á hakanum sökum orkuskorts eða að flutningskerfið ræður ekki við að flytja orkuna. Mörg verkefni eru komin af stað en þrátt fyrir það er nauðsynlegt að endurhugsa alveg uppá nýtt hvernig við komum nýjum grænum orkuverkefnum af stað.  Í mínum huga er ekki leiðin framá við að notast áfram við rammaáætlun.  Hvort sem um er að ræða græn orkuskipti eða áframhaldandi uppbygging á orkutengdum iðnaði þá þarf að virkja enn meira.  Á meðan er t.d. tómt mál að tala um að hætta að nýskrá bensín og dísel bíla á næsta ári eða næstu árum enda á ekki að setja nein tímamörk á slíkt.  Það verða alltaf neytendur og markaðurinn sjálfur sem fer í þessi umskipti.  Treystum þeim.

Hvetjandi skattkerfi, einfaldara og skilvirkar regluverk og eftirlit og stórátak í grænni orkuöflun er forsenda þess að hér haldi áfram að byggjast upp blómlegt atvinnulíf sem eykur enn tækifærin fyrir okkur öll og viðheldur áframhaldandi hagsæld og velferð íslensku þjóðarinnar.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi