Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er með frumvarp í vinnslu sem miðar að því að breyta leigubílalögum aftur yfir í fyrra horf og verður þannig skref sem stigið var í átt til aukins frelsis á leigubílamarkaði stigið til baka.

Líkt og Viðskiptaráð bendir á í umsögn sinni myndu fyrirhugaðar breytingar fela í sér afturför á leigubílamarkaðnum hér á landi. Meðal annars á að taka upp gamaldags stöðvarskyldu á ný sem líkt og ráðið bendir á leiðir til hærri verða og lakari þjónustu fyrir neytendur.

Rétt eins og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra, sem þrýsti á samráðherra sinn Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra að láta af áformum sínum um að breyta tollflokkun pítsaosts íblönduðum jurtaolíu aftur til fyrra horfs, virðist Eyjólfur hafa látið undan þrýstingi hagsmunaafla sem bera síður en svo hag neytenda fyrir brjósti.

Ef fram fer sem horfir má því ætla að Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, muni láta draum Guðmundar Hrafns Arngrímssonar, formanns Leigjendasamtakanna, um leiguþak rætast með tilheyrandi hörmungum fyrir íslenskan leigumarkað.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.