Skattar og álögur hafa óumflýjanlega áhrif á rekstrarákvarðanir. Að sama skapi hefur lengi verið sagt að ekkert sé jafn óumflýjanlegt og dauðinn en skattlagning ríkisvaldsins.
Hvað sem því líður eru flestir sérfræðingar sammála um að mörk séu fyrir skynsamlegri skattlagningu af hálfu ríkisvaldsins. Þannig sýnir Laffer-kúrfan að við ákveðna skattprósentu næst hámark skatttekna, sem þýðir að hækkun á skattprósentu mun ekki skila auknum tekjum í ríkissjóð heldur þvert á móti munu skatttekjur minnka.
Ágætt er að hafa þetta í huga þegar rýnt er í áform ríkisstjórnarinnar um verulega hækkun veiðigjalda. Hækkunin er auðvitað ekkert annað en hækkun á álögum stjórnvalda á fiskveiðar og það hvort að hún sé kölluð „leiðrétting”eða „réttlátt afnotagjald“ breytir engu um efnahagsleg áhrif hækkunarinnar.
Af einhverjum ástæðum kjósa stjórnvöld að horfa til Noregs í útfærslu sinni á tvöföldun veiðigjalda. Þetta þýðir meðal annars að verðþróun á olíu á heimsmarkaði og gengi norsku krónunnar verður ráðandi þáttur fyrir afkomu mikilvægra nytjastofna á borð við uppsjávarfisk.
Íslenskur sjávarútvegur hefur til þessa haft umtalsverða yfirburði yfir þann norska og skiptir samþætting virðiskeðjunnar mestu máli í því samhengi. Hér á landi eru veiðar og vinnsla á sömu hendi og hefur það skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum og væntingar um fyrirsjáanleika í þeim efnum hefur meðal annars skilað sér í mikilli fjárfestingu í landvinnslu á landsbyggðinni undanfarinn áratug. Það hefur skilað sér í miklum tekjum til sveitarfélaga svo því sé haldið til daga.
Ólíkt því sem gerist á Íslandi er nánast allur fiskur sem er veiddur við Noregsstrendur fluttur óunninn út til vinnslu í ríkjum á borð við Kína og Pólland. Mikil hækkun veiðigjalda mun leiða til sömu þróunar hér á landi. Hækkunin kallar á að veiðarnar einar og sér standi undir hækkuninni og þar af leiðandi verður lítið svigrúm til fjárfestingar í landvinnslu. Skynsamlegt verður að flytja fiskinn út til vinnslu til ríkja þar sem launakostnaður er mun lægri en hér á landi. Þetta bitnar á verðmætasköpuninni hér á landi.
Það er ótrúlegt að horfa upp á Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra segja í fjölmiðlum að ef fyrirtæki loka landvinnslum sínum sé það ekki vegna hækkunarinnar heldur vegna þess að eigendur þeirra séu komnir í fýlu. Þessi ummæli sýna að ráðherrann hefur lítinn skilning á áhrifum skattlagningar á rekstrarákvarðanir í fyrirtækjarekstri og á hagræna hvata. Þau áhrif hverfa ekki við það eitt að kalla hækkunina „leiðréttingu“ eða eitthvað annað.
Skilningsleysi ráðherra er áhyggjuefni sem og annarra sem að þessari stefnumótun komu. Frumvarpið ber þess merki. Í því er meðal annars fullyrt, án nokkurs rökstuðnings, að áhrif hækkunar veiðigjaldsins og lækkun hagnaðar í greininni hafi hverfandi áhrif á samkeppnishæfni þeirra og fjárfestingargetu.
Framlag sjávarútvegsins til íslensks efnahagslífs er mikilvægt. Heildarskattspor geirans hefur verið á bilinu 70 til 80 milljarðar þegar allt er tekið til. Af þessu renna tugir milljarða beint til ríkisins í formi skatta og annarra gjalda. Skynsamleg útfærsla á skattaumhverfi sjávarútvegs sem og annarra atvinnugeira þarf að taka mið af því hverni verðmætasköpunin geti orðið sem mest. Hroðvirknislegt frumvarp um hækkun á veiðileyfagjaldinu sem greinilega á að keyra gegnum þingið á sem skemmstum tíma gerir það ekki.
Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. apríl 2025.