Stefnir sem stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina sinna og leggur ríka áherslu á að gera það með ábyrgum og gagnsæjum hætti. Nýlega var tekinn saman fjármagnaður útblástur gróðurhúsalofttegunda frá eignum sjóða í rekstri Stefnis og birtum við því tengt skýrslu þar sem koma fram meðal annars upplýsingar um losunarstyrk fjárfestingar fyrir hverja 1. mkr. fjárfesta í tilteknum sjóðum. Að mínu mati er það sennilega gagnlegasti mælikvarðinn fyrir hinn almenna lesanda og með birtingu þessara niðurstaðna er hægt að bera saman sjóði hjá Stefni, milli sjóðastýringarhúsa og út fyrir landssteinana.
Aðferðafræðin sem notuð er við útreikninginn byggir á aðferðafræði Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF), alþjóðlegs samstarfsvettvangs fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda.
Fyrir mér er vinnan við samantekt skýrslunnar, gagnaöflunar og skoðun einstakra útgefenda mögulega mun mikilvægari vinna en talan sem kemur út í lok vinnunnar en það er líka margt sem vakti upp spurningar.
Tvítalning útblásturs t.d. hlutabréfa og skuldabréfa útgefanda getur verið vandamál en taka þarf sérstaklega tillit til þess við útreikninga og sömuleiðis er lítið sem vinnur með þeim félögum sem alla jafna er hampað fyrir að standa að vottuðum aðgerðum um kolefnisjöfnun í rekstri sínum. Aðeins er horft til brúttó útblásturs og ekki nóg með það þá er eins og hjá Stefni sem á töluvert af ríkisskuldabréfum horft til kolefnislosunar Íslands í heild og eru þar skiljanlega eru einnig tölur fyrir fyrirtæki með starfsemi á Íslandi, sem leiðir til tvítalningar á losun.
Ég verð því á sama tíma og ég var þakklát fyrir þá vinnu sem hefur verið lögð í skýrsluna og gagnaöflun henni tengt, mjög hugsi yfir tilgangi hennar og hvernig við getum nýtt upplýsingarnar til að stýra fjármagni betur fyrir hönd okkar viðskiptavina. Að því sögðu erum við þó komin með viðmið eða núllpunkt sem við getum unnið út frá. Við erum komin með skýrar upplýsingar um útblástur margra þeirra félaga þar sem við förum með eignarhlut og getum beitt þau aðhaldsaðgerðum í gegnum okkar virka eignarhald. Við erum einnig í betur stakk búin til að ýta undir þróun á loftslagsvænni fjármálavörum og getum stuðlað að því að samræma betur flæði fjármuna við Parísarsamkomulagið sem er meðal þeirra markmiða sem PCAF telur mælingu á fjármagnaðri losun eiga að skila.
Að vera auðmjúk gagnvart ferlinu og niðurstöðu skýrslunnar er sennilega það besta í stöðunni, að anda inn og út þegar upplýsingaóreiðan er mikil og horfa fram á veginn með skýra sýn á þann árangur sem okkur ber að ná fyrir hönd viðskiptavina okkar.
Höfundur er fjármálastjóri Stefnis.