Andverðleikasamfélagið á sér marga stuðningsmenn innan ríkisstjórnarinnar. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hannar skattkerfi sem er til þess fallið að umbuna þeim sem ná lélegum rekstrarárangri í sjávarútvegi á kostnað þeirra sem standa sig betur.

Þá hefur Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra boðað lagabreytingu sem gerir framhaldsskólum kleift að horfa til annarra þátta en einkunna og frammistöðu í námi þegar kemur að því að velja nemendur til inngöngu. Þessi áform hafa verið harðlega gagnrýnd og eins og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, bendir á er með þessu verið að gera hlutlaust mælitæki sem einkunnagjöf vissulega er „að táknmynd félagslegs óréttlætis“.

Annars velta hrafnarnir fyrir sér hvaða mælikvarða Guðmundur Ingi menntamálaráðherra vilji að framhaldsskólar horfi til þegar þeir velja inn nemendur? Árangurinn á síðasta tímabili í Football Manager 2024 eða þá meðalskor í Fortnite í 10. bekk? Þá gæti fjöldi fylgjenda á Instagram eða þá TikTok legið til viðmiðunar sem og árangur í Skrekk og Skólahreysti.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 16. apríl 2025.