Þetta sumarið hefur golfíþróttin heltekið mig og ég eyði nú löngum stundum á Golfbox. Fyrir þá sem ekki vita þá er Golfbox undarlegt danskt app sem lítur út fyrir að hafa verið búið til í kringum 1995, en það heldur utan um skor og gerir mér kleift að bóka tíma á hinum ýmsu golfvöllum.
Mér finnst ég hafa náð feiknalegum árangri og er komin með 39,8 í forgjöf. Fyrir þá sem ekki vita er forgjöf auka högg sem fást fyrir að vera lélegur. Ég er sumsé léleg, en kýs sjálf að líta á mig sem óslípaðan demant. Vegna forgjafar get ég spilað par 5 holu á 8 höggum og fengið jafn marga punkta og góður kylfingur sem spilar holuna á 5 höggum. Fyrir þá sem ekki vita þá eru punktar gefnir fyrir skor á holu.
Þetta er satt að segja nokkuð gott og sanngjarnt kerfi. Allir geta keppt á jafnréttisgrundvelli – og jafnvel notið þess að vera utandyra í því sem kallað er íslenskt sumar.
Þá kemur spurning, sem enginn nema sá sem ekki spilar golf gæti spurt: Af hverju þá að bæta sig? Af hverju ekki bara hærri forgjöf og fleiri högg sem hægt er að spreða í óþarfa móa og skurði sem enginn tilgangur virðist vera með nema að safna boltum frá óvönum kylfingum?
Kannski vegna þess að ég trúi á heiðarlega samkeppni og jafnrétti. Ég vil ekki fá það sem ég þarf ekki, hvorki í golfi né öðru. Það á ekki að þurfa að umbuna mér að ósekju. Það má kannski líta á þetta með áþekkum hætti og að kynjasjónarmið skuli hafa áhrif við ráðningu í starf. Það gengur kannski ekki nógu vel akkúrat núna á golfvellinum, en það er fátt sem gleður mig meira en að losa mig við forgjöf sem ég þarf ekki á að halda.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.