Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ritaði grein á Vísi, þar sem hann gagnrýndi lagafrumvarp sem kveður á um að lögfesta iðgjaldahækkun í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5%. Kallar hann frumvarpið bastarð og gagnrýnir forystu útgerðarinnar.
„Útgerðarelítan hefur komið því fyrir, með stuðningi stjórnvalda og SA, að sjómenn verði undanskildir þessari hækkun og lögfestingu þar sem þeim verður gert að semja um slíkt sjálfir og lögverja þannig áframhaldandi launa og réttindaþjófnaði af þessari mikilvægu stétt," skrifar Ragnar Þór.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, leiðrétti Ragnar Þór pent í grein sem hún birti í gær á sama vettvangi. Bendir hún á að iðgjaldahækkunin tengist kjarasamningum ASÍ og SA og taki því ekki til sjómanna. Það sé á valdi SA, SFS og stéttarfélaga sjómanna að semja sín á milli og í þeim samningum hafi ekki verið samið um hækkun iðgjalds í 15,5%.
„Af þeim sökum munu lögin, verði frumvarpið samþykkt, áfram virða þann rétt samningsaðila í kjarasamningum að semja um laun og önnur kjör, án íhlutunar löggjafans."
Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .