Hagkvæmur opinber rekstur snýst um að ráðstafa skattfé á sem skilvirkastan hátt. Þegar það er gert veitir hið opinbera borgurunum góða þjónustu og forgangsraðar takmörkuðum fjármunum í verkefni þar sem þeim er vel varið. Með öðrum orðum snýst hagkvæmni í opinberum rekstri um að ná sem mestum árangri fyrir hverja krónu er á þeim málefnasviðum sem sátt ríkir um að hið opinbera eigi að sinna.

Tækifæri nýrrar ríkisstjórnar

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að það sé af forgangsverkefnum hennar að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Eitt af fyrstu verkum hennar var að boða til samráðs við þjóðina undir yfirskriftinni  „Verum hagsýn í rekstri ríkisins“ og óska eftir tillögum frá almenningi um tillögur, hugmyndir og sjónarmið um hvernig hægt er að hagræða í rekstri ríkisins. Þessum áherslum ber að fagna og það óskandi að efndir verði á fyrirheitum.

Viðskiptaráð lét sitt ekki eftir liggja og lagði fram 60 tillögur um hvernig megi hagræða í rekstri ríkissjóðs og spara allt að 122 milljarða króna á ári. Í tillögum ráðsins felst m.a. að selja ríkiseignir, endurskoða starfsmannahald, leggja niður verkefni, sameina stofnanir og draga úr ýmsum styrkjum og opinberum ívilnunum. Með því að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd geta stjórnvöld skapað aukið svigrúm til að lækka skatta, draga úr skuldsetningu – eða bæta opinbera þjónustu án þess að auka heildarútgjöld ríkisins.

Til þess að stjórnvöld nái forskoti í opinberum rekstri er þó ekki nóg að skera niður útgjöld; nauðsynlegt er að nálgast opinber fjármál á heildstæðan hátt og tryggja að breytingar leiði til varanlegra umbóta í opinberum rekstri. Skilvirkni, minni miðstýring og aukið svigrúm fyrir frjálst framtak eru lykilþættir í því að tryggja farsæla framkvæmd hagræðingaraðgerða.

Sala eigna og lækkun skulda

Vaxtagjöld eru einn stærsti útgjaldaliður hins opinbera og samkvæmt gildandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að þau nemi um 650 milljörðum króna yfir tímabil áætlunarinnar. Það þýðir að á hverjum degi næstu fimm árin munu 350 milljónir króna fara í vaxtagreiðslur af opinberum skuldum. Ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr kostnaði ríkisins er að selja eignir. Með því að losa um eignir í fyrirtækjum eins og  Landsbankanum, Landsvirkjun, Íslandsbanka og Isavia gæti ríkið lækkað skuldir og þannig dregið úr vaxtagjöldum um 36 milljarða króna árlega.

Eignasala felur ekki aðeins í sér að farið betur með skattfé, heldur losna einnig úr læðingi kraftar þegar frjálst framtak einkaaðila tekur við af opinberum rekstri. Það er hagkvæmast bæði fyrir þá sem þiggja þjónustu og einnig þá sem fjármagna hana að hún sé veitt á samkeppnismarkaði. Hvatar opinberra aðila til að bæta þjónustu og lækka kostnað eru veikari en hjá einkaaðilum, sem leiðir til sóunar.

Til að tryggja að eignasala skili sem mestum ávinningi þarf að gæta þess að sölumeðferð sé fagleg og gagnsæ, svo markaðsvirði eignanna nýtist sem best. Söluandvirðið sé nýtt til að greiða niður skuldir, fremur en að fjármagna almenn ríkisútgjöld.

Skilvirkara starfsmannahald og jafnræði í kjörum

Opinber rekstur á ekki að vera dýrari en nauðsyn krefur. Sérréttindi opinberra starfsmanna eru umtalsvert meiri en starfsmanna á almennum markaði. Styttri vinnutími, aukinn veikindaréttur, sterkari uppsagnarvernd og lengra orlof felur allt í sér kostnað sem greiddur er með opinberum fjármunum. Ef að þessi réttindi yrðu samræmd á milli markaða mætti spara 32 milljarða króna á ári.

Stjórnvöld verða að tryggja eðlilegan sveigjanleika í sínum eigin rekstri, þannig að ríkið geti aðlagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum líkt og einkafyrirtæki. Um leið þarf að draga úr óhóflegri fjölgun opinberra starfa, en fjöldi stöðugilda hjá Stjórnarráðinu jókst til að mynda um 30% á árunum 2019–2023.

Leggja þarf niður verkefni og fækka stofnunum

Á undanförnum árum hefur ríkisvaldið í vaxandi mæli stigið inn á svið þar sem einkaaðilar gætu sinnt þjónustunni betur. Eins hafa stjórnvöld komið á nýjum útgjöldum sem svari við eigin íþyngjandi reglum eða veru á markaði eins og með styrkjum til fjölmiðla og stjórnmálaflokka. Þá hafa stjórnvöld jafnframt aukið óhóflega við útgjöld þegar kemur að endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og fjárveitingum til frjálsra félagasamtaka.

Þá er aðkoma ríkisins að almennum fyrirtækjarekstri nær aldrei heppilegt fyrirkomulag. Ríkið ætti að hætta rekstri bæði ÁTVR og Póstsins og bjóða út alþjónustuhlutverk síðarnefnda félagsins. Eins þarf að draga úr óþarfa regluverki og jafna samkeppnisstöðu svo einkaaðilar séu sjaldnar í beinni samkeppni við hið opinbera.

Í dag eru 168 ríkisstofnanir starfandi á Íslandi og með sameiningum og niðurlagningum mætti fækka þeim um 100, sem gæti sparað ríkinu 11 milljarða króna á ári. Meðal annars mætti sameina sýslumannsembættin, sameina lögregluumdæmin og sameina samkeppnis- og neytendastofnanir í eina. Færri og öflugri stofnanir draga úr óþarfa yfirbyggingu og tvíverknaði um leið og þær eiga að vera betur í stakk búnar til að veita þjónustu.

Ekki hægt að undanskilja grunnkerfin

Meirihluti opinberra útgjalda rennur til almannatrygginga-, heilbrigðis- og menntakerfisins, þar sem útgjaldavöxtur hefur verið hraðastur á síðustu árum. Það er viðvarandi verkefni að leita allra leiða til að reka þessi grunnkerfi samfélagsins á sem hagkvæmastan hátt. Viðskiptaráð hefur lagt fram fjölmargar tillögur sem snúa að þessum kerfum, þó erfitt sé að meta fjárhagslegt vægi þeirra með beinum hætti. Grundvallaratriði er að efla frjálst framtak og leita sífellt hagkvæmari leiða til að gera hlutina með árangur, samkeppni og fjölbreytni að leiðarljósi.

Í heilbrigðisþjónustu mætti nýta jákvæða reynslu af einkareknum heilsugæslum, sem hafa skipað sér í efstu sæti þjónustukannana fjögur ár í röð. Þá er íslenska grunnskólakerfið eitt það dýrasta meðal OECD-ríkja, en námsárangur er samt sem áður næstlakastur í Evrópu. Hér er mikilvægast að bæta árangurinn, en samræmt lokamat grunnskóla myndi hjálpa þar til. Þá ætti að leita leiða til að auka bæði hagkvæmni og fjölbreytni í skólastarfi, en hvort tveggja skortir í dag. Eins ætti að innleiða virkt endurmat á starfsgetu örorkulífeyrisþega til að hvetja til virkni og draga úr kostnaði, á sama tíma og tryggður er stuðningur við þá sem þurfa á honum að halda.

Opinber umsvif hafa áhrif á lífskjör

Það er þarft að auka skilvirkni í rekstri ríkisins. Stjórnvöld þurfa þó ávallt að hafa í huga að lífskjör allra sem hér búa ráðast í lok dags af verðmætasköpun og framleiðni í einkageiranum. Því mun ráðstöfun hagræðingarsvigrúms, umsvif grunnkerfa og þróun regluverks fyrir einkageirann hafa mikil áhrif á árangur þeirrar hagræðingar sem stjórnvöld ná fram.

Ein áhrifaríkasta leiðin til að bæta lífskjör er að lækka opinber útgjöld. Þau eru ávallt fjármögnuð með sköttum eða verðbólgu, sem hvort tveggja getur dregið úr frjálsu framtaki og sköpun nýrra verðmæta. Þá myndi einfaldara og hagfelldara regluverk atvinnulífsins einnig styðja við verðmætasköpun. Með því að draga úr íþyngjandi kvöðum og bæta framkvæmd eftirlits með þeim væri hægt að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og athafnafrelsi einstaklinga. Slíkar aðgerðir myndu skila sér í aukinni framleiðni og betri lífskjörum til framtíðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Greinin birtist í sérblaðinu Viðskiptaþing 2025.