Óðinn fjallaði um ýmislegt í síðustu viku. Þar á meðal ótrúlega kröfu sem var samþykkt á þingi Knattspyrnusambands Íslands um þar síðustu helgi. Áskrifendur geta lesið pistilinn í heild hér.

Óveðurskýin, niðurskurður í stað aðhalds og fráleidd krafa KSÍ

Sama gildir um sveitarfélögin. Þar er stöðugur söngur um að verkefnin séu svo mikil og mörg en engir peningar til. Þegar staðreyndin er sú að sveitarfélögin eru komin langt út fyrir þau verkefni sem lögin skylda þau til að sinna.

Síðasta hugmyndin að verkefni fyrir sveitarfélögin kom um helgina. Þá var haldið þing Knattspyrnusambands Íslands sem ályktaði svo:

Ársþing KSÍ samþykkir að sett verði inn ákvæði í reglugerð um knattspyrnuleikvanga að allir leikvellir í efstu deild karla og kvenna verði búnir flóðljósum með að lágmarki 800 lux (útfærsla í höndum mannvirkjanefndar) og uppfylli önnur skilyrði sem UEFA setur varðandi flóðlýsingu á leikvöllum. Aðlögun verði gefin til þess að uppfylla þetta skilyrði til upphaf keppnistímabilsins 2026.


Greinargerð
Með breytingu á mótafyrirkomulagi í efstu deildum og lengingu keppnistímabils inn í skammdegið er mikilvægt að bregðast við og búa leikvellina þannig að hægt sé að spila á þeim seinni part dags þegar líður á haustið. Við núverandi ástand er erfitt að finna hentugan tíma fyrir leiki í seinni hluta tímabilsins hjá þessum liðum og lenda leikir því oft á þeim tímum hvorki áhorfendur né starfsmenn leikjanna hafa möguleika á að mæta á völlinn.

Þegar forkólfar KSÍ hafa verið spurðir um þessa tillögu kemur í ljós að þeim bara alveg hreint sjálfsagt að sveitarfélögin borgi fyrir þetta.

Þessi hugmynd er galin. KSÍ-mönnum til upplýsinga þá eru mörg sveitarfélög á hausnum vegna þess að forsvarsmenn þeirra hafa gefið allt eftir gagnvart öllum kröfugerðarhópum.

Þar fer Reykjavíkurborg fremst en álag á skuldabréf borgarinnar flýgur með himinskautum. Ef Reykjavíkurborg myndi ákveða í dag að gefa út óverðtryggt skuldabréf til ársins 2035, til tólf ára, þyrfti borgin að greiða 9,6% vexti á öllum líftíma þess.

Vegna þessarar stöðu þá hefur borgin dregið verulega úr útgáfum og leitað til viðskiptabankanna. Væri nær að upplýsa almenning um þetta, frekar en lýsa upp fótboltavelli þar sem fullorðið fólk eltir uppblásinn bolta.

KSÍ er með eigið fé upp á 866 milljónir króna og hafi það ágæta fólk áhuga á að lýsa upp fótboltavelli, geta þeir notað peninga sambandsins til þess.

Óðinn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 2. mars 2023.