Meira um Ríkisútvarpið. Stjórnendur þess efndu til mikils lúðrablásturs í september og boðuðu landsmenn alla til svokallaðs Útvarpsþings í Efstaleitinu. Á þinginu var ný stefna Ríkisútvarpsins til næstu ára kynnt.

Ekki þótti ástæða til annars en að flytja þrjá erlenda sérfræðinga til landsins til að ávarpa þingið. Ekki bendir það til þess að skipuleggjendur þingsins hafi verið plagaðir af loftlagskvíða eða uppteknir af þeim metnaðarfullu markmiðum í loftlagsmálum sem Ríkisútvarpið hefur sett sér samkvæmt hinni nýju stefnu. Auk þeirra ávörpuðu Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður stjórnar RÚV og Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri þingið. Fundurinn stóð yfir þrjá tíma.

***

Sem kunnugt er á fjölmiðlarýnir sér ekkert líf og fylgist hann því með streymi af þinginu. Fátt er að segja af þeirri upplifun annað en að hugtökin stafrænn og sjálfbærni komu mikið sögu. Eiginlega í hverri einustu setningu.

Hin viðamikla nýja stefna Ríkisútvarpsins er ekki efnismeiri. Þrátt fyrir það opnaði RÚV sérstakan vef þar sem að almenningur getur kynnt sér hina nýju stefnu og þar fer mikið fyrir miklum umbúðum utan um rýrt inni hald. Eftirfarandi er ágætt dæmi um það:

Áherslurnar sem settar eru fram í stefnunni taka mið af lykilbreytingum í ytra umhverfi, viðhorfi og hegðun neytenda, þróun fjölmiðlamarkaðar og stöðu almannaþjónustumiðla. Stefnuskjöl systurstöðva á Norðurlöndunum og Bretlandseyjum voru rýnd en að auki byggir vinnan við stefnumótun rúv á umfangsmiklum rannsóknum frá EBU, sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva.

Önnur atriði í ytra umhverfi eru lykilatriði á borð við samfélagslega ábyrgð, tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, auknar áherslur á sviði jafnréttismála, á sviði umhverfis- og loftslagsmála, áherslur á fjölbreytileika, jafnræði, aðgengi og sýnileika fjölbreyttra hópa. Horft var til aukinnar norrænnar samvinnu við framleiðslu á efni, auk þess sem stefnumótun og áherslur ebu á mörgum sviðum höfðu áhrif á þá áherslu að horfa á aukið virði (e. added value) almannaþjónustumiðlanna. Horft var til nauðsyn þess að auka meðvitund um falsfréttir og leiðir til að sporna gegn þeirri þróun og upplýsingaóreiðu almennt, m.a. með áherslu á miðla- og upplýsingalæsi.

Staða RÚV, hlutverk og áskoranir voru bornar saman við stöðu annarra miðla og þær leiðir sem þeir hafa valið. Stefnuskjal rúv á sér skýran samhljóm með þeim. RÚV sinnir mikilvægri þjónustu í íslensku samfélagi sem þó er ekki nákvæmlega eins og annars staðar en því fer fjarri að RÚV sé um allt einstakt og geti ekkert af öðrum lært.

Í apríl og maí 2021 tóku ráðgjafar Stratagem einstaklingsviðtöl við stjórnarmenn Ríkisútvarpsins, stjórnendur og lykilstarfsmenn hjá félaginu. Einnig efndu ráðgjafar rúv til samtals við breiðan hóp annarra hagaðila sem starfa í umhverfi rúv. Var afstaða þeirra til rúv og tiltekinna þátta í starfseminni greind með rafrænni könnun og viðtölum við fulltrúa frjálsra félagasamtaka, stjórnendur mennta- og menningarstofnana, einkarekinna fjölmiðla og annarra hagsmunahópa þar sem snertifletir þessara aðila við stefnu rúv voru dregnir upp. Þá kannar rúv reglulega áhorf og hlustun, framkvæmir árlega viðhorfskönnun og traustsmælingu og er í stöðugu sambandi við áhorfendur og hlustendur í gegnum ábendingagáttir á vef og samfélagsmiðlum. Þessi gögn hafa verið greind jafnhliða yfir allt tímabilið af stýrihópi með sérstaka hliðsjón af stefnumótunarvinnunni.”

Það sem vekur athygli er ekki síst hversu mikil vinna var lögð í undirbúning stefnumótunarvinnunnar. Svo mikið að nafn Alfreðs von Schlieffen kemur upp í hugann. En hvað felst þá í hinni nýju stefnu Ríkisútvarpsins. Í stuttu máli felur hún það í sér að Ríkisútvarpið stefnir að því að halda áfram að miðla fréttum, afþreyingu og menningarefni til almennings í línulegri og ólínulegri dagskrá og þar á bæ eru engin áform um að hætta miðla ofangreindu efni aðstoð nýrrar tækni.

Einhverjir gætu vafalaust ályktað sem svo að inntakið í þessari nýju stefnu heyri ekki til slíkra tíðinda að ástæða hafi verið til að efna til sérstaks þings um hana og láta hanna nýtt sérstakt vefsvæði með tilheyrandi kostnaði. Rétt er að taka fram að stjórnendur Ríkisútvarpsins er ekki nærri að baki dottnir þegar að kynningu nýrrar stefnu stofnunarinnar. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi í septemberbyrjun þá kemur fram í fundargerð stjórnar frá því í sumar að lykilstarfsfólk fari um landið ásamt útvarpsstjóra og kynni stefnuna fyrir almenningi. Með öðrum orðum ætlar stofnunin að feta í fótspor Sumargleðinnar og í beina samkeppni við Bylgjulestina og kynna þetta mikla plagg fyrir almúganum.

Allt þetta tilstand kringum nýja stefnu Ríkisútvarpsins er auðvitað glæsilegur minnisvarði um sjálfbirgingshátt stofnunarinnar og vekur upp áleitnar spurningar um meðferð og ráðstöfun þess fé sem almenningur greiðir til hennar á ári hverju. En að því sögðu má þakka fyrir að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sótti ekki innblástur til stjórnenda RÚV þegar kom að kynningu nýrrar stefnu ÍL-sjóðsins. Sú stefnubreyting er heyrir öllu meiri tíðindum en það er önnur saga.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 27. október 2022.