Fyrir helgi vakti Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, athygli á frumvarpi sem lagt var fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings á dögunum.Nafn frumvarpsins er The Arctic Commitment Act og er flutt af Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins frá Alaska, og Angus King, frá Maine, sem stendur utan flokka.
Eins og Björn bendir á nær frumvarpið til bandarísks þjóðaröryggis, siglinga, rannsókna og viðskipta. Markmiðið sé meðal annars að hindra „einokun“ Rússa á siglingum í Norður-Íshafi og tryggja samfellda viðveru bandarísku strandgæslunnar og flotans á norðlægum slóðum. Þá er hvatt til fjárveitinga til rannsókna og grunnvirkja – innan Bandaríkjanna og í samvinnu við aðrar norðurskautsþjóðir en Rússa. Í því samhengi er heimild til þess að gerður sé fríverslunarsamningur við Ísland.
Björn bendir enn fremur á að í ákvæðinu varðandi Ísland segir að Bandaríkjaríkjaþing telji að Bandaríkjastjórn eigi að hefja viðræður við ríkisstjórn Íslands um að þróa og gera víðtækan fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Íslands. Þar verði meðal annars tekið af skarið um að Íslendingar geti fengið E-vegabréfsáritun til Bandaríkjanna (hún er fyrir fjárfesta eða viðskiptamenn frá ríki sem hefur gert viðskipta- og siglingasamning við Bandaríkin) enda fái bandarískir ríkisborgarar svipaða stöðu á Íslandi.
Í þessu felast töluverð tíðindi og að sama skapi tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld. Tækifæri sem þverpólitísk sátt ætti að ríkja um í sölum Alþingis. Eins og fram kom í svari Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, um kosti við gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin veturinn 2010-2011 þá töldu íslensk stjórnvöld litlar líkur á að bandarísk stjórnvöld hefðu áhuga á gerð slíks samnings. Þannig sagði í svari ráðherra að stjórnvöld í Washington hefðu þá gefið það út að Ísland væri ekki ofarlega á forgangslistanum yfir gerð slíkra samninga. Þá benti utanríkisráðherra á að stjórnvöld vestanhafs legðu meiri áherslu á að semja um viðskiptakjör við önnur ríki í fjölþjóðlegum samningum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) fremur en með gerð tvíhliða fríverslunarsamninga.
Frumvarpið sem nú hefur verið lagt fram fyrir öldungadeildardeildina sýnir svo ekki sé um villst hversu miklar breytingar hafa átt sér stað í alþjóðamálum og hagsmunamati bandarískra stjórnvalda undanfarinn áratug. Vissulega ríkir óvissa um framgang frumvarpsins enda hefur öldungardeild Bandaríkjaþings ekki verið stórvirk þegar kemur að samþykkt þverpólitískra mála á undanförnum árum. En eins og bent er á í fréttaskýringu Morgunblaðsins um málið á þriðjudag má leiða líkur á að frumvarpið njóti stuðnings á þingi:
„Það mun velta mjög á afstöðu forseta og ríkisstjórnar, sem tæplega munu beita sér gegn því, enda er frumvarpið í góðum samhljómi við stefnu Bandaríkjastjórnar í málefnum norðurslóða, en hún hélst óbreytt við forsetaskiptin síðustu. Í ljósi stríðsins í Úkraínu vilja auk þess margir stjórnmálamenn vestra sýna að Bandaríkin muni ekki eftirláta Rússum siglingaleiðir eða áhrifasvæði í Norður-Íshafinu. Hvernig það fer saman við stefnu ríkisstjórnar Joes Bidens Bandaríkjaforseta á svo eftir að koma í ljós. Af heimsóknum utanríkisráðherra Bandaríkjanna hingað til lands undanfarin ár, má þó ætla að nánari tengsl ríkjanna, þar á meðal á viðskiptasviðinu, séu stjórnvöldum í Washington ekki á móti skapi.“ Ljóst má vera að um gríðarlegt hagsmunamál er að ræða fyrir íslensk stjórnvöld. Óheillavænleg þróun í alþjóðamálum hefur gert það að verkum að bandarísk stjórnvöld beina sjónum sínum í auknum mæli til norðurslóða. Íslensk stjórnvöld eiga að leggja alla áherslu að stuðla að þeirri þróun og liðka fyrir auknum umsvifum þessa mikilvægasta bandamanns þjóðarinnar í heimshlutanum. Það er fagnaðarefni að bandarískir þingmenn spyrði saman þessa þróun við gerð fríverslunarsamninga og mikilvægt að íslenskir stjórnmálamenn hamri járnið meðan það er enn heitt í þessum efnum.
Bersýnilegan áhuga bandarískra þingmanna á að gera fríverslunarsamning við Ísland verður einnig að setja í samhengi við umræðu hvernig tekið er á móti erlendri fjárfestingu hér á landi, en þróunin undanfarið bendir greinilega til þess að full þörf sé á að taka til í okkar ranni í þeim efnum.