Frelsið er yndislegt,  ég geri það sem ég vil, segir í þekktum dægurlagatexta. Það er ákveðin fegurð í frelsinu og það er forsenda kraftmikils velferðarsamfélags. Samt er það nú svo að frelsinu fylgir ábyrgð þegar við búum í samfélagi. Ábyrgðin getur verið samfélagsleg og hún getur varðað frelsi annarra. Það er á ábyrgð okkar allra að tryggja sjálfbærni á öllum sviðum,  hvort sem það er nýting takmarkaðra auðlinda,  matvælaframleiðsla, menntun, heilbrigðisþjónusta og svo framvegis, svo við getum mætt okkar þörfum sem einstaklingar og búið í samfélagi. Þegar rætt er um sjálfbærni höfum við minni áhyggjur af fæðingartíðni, sem er mikilvægast að öllu því sjálfbærni á öðrum sviðum hefur enga þýðingu til lengri tíma ef við hættum að vera sjálfbær þegar kemur að fæðingum.

Frelsið er yndislegt,  ég geri það sem ég vil, segir í þekktum dægurlagatexta. Það er ákveðin fegurð í frelsinu og það er forsenda kraftmikils velferðarsamfélags. Samt er það nú svo að frelsinu fylgir ábyrgð þegar við búum í samfélagi. Ábyrgðin getur verið samfélagsleg og hún getur varðað frelsi annarra. Það er á ábyrgð okkar allra að tryggja sjálfbærni á öllum sviðum,  hvort sem það er nýting takmarkaðra auðlinda,  matvælaframleiðsla, menntun, heilbrigðisþjónusta og svo framvegis, svo við getum mætt okkar þörfum sem einstaklingar og búið í samfélagi. Þegar rætt er um sjálfbærni höfum við minni áhyggjur af fæðingartíðni, sem er mikilvægast að öllu því sjálfbærni á öðrum sviðum hefur enga þýðingu til lengri tíma ef við hættum að vera sjálfbær þegar kemur að fæðingum.

Reglulega er samt í fréttum að fæðingartíðni hér á landi er orðin svo lág að við erum ekki sjálfbær sem þjóð. Iðulega fylgir þeim fréttum viðtöl við ungt fólk sem hefur þörf fyrir að tilkynna okkur hinum að það ætli ekki að eignast börn og lætur það hljóma eins og það sé einhver dygð. Ástæðulaust er að svipta fólk frelsinu í þeim efnum enda geta verið ýmsar rökréttar og eðlilegar ástæður fyrir þeirri afstöðu, svo sem eins og veikindi eða erfiðar félagslegar aðstæður. Meginástæðan virðist samt vera sú að þetta fólk hafi aðra forgangsröðun í lífinu en barneignir eða treystir sér ekki til að eignast börn vegna loftslagskvíða eða mannvonsku í heiminum.

Mikilvægt er að gefa ungu fólki nokkur heilræði í þessum efnum, jafnvel með hæfilegum hroka og yfirlæti. Það er vinna og álag á köflum að eignast börn og koma þeim til manns. Samt er það auðveldara hér á landi en víðast hvar annars staðar með verulega niðurgreiddan leikskóla og annan stuðning samfélagsins við foreldra. Fæst okkar þekkja nokkurn mann sem hefur séð eftir því að eignast börn. Barneignum fylgir gjarnan óendanleg gleði og það er þroskandi og dýrmæt reynsla að bera ábyrgð á öðrum. Ekkert okkar kemst í gegnum lífið án þess að lenda í mótlæti og við þær aðstæður kemur enginn í staðinn fyrir nánustu fjölskyldu. Það er örugglega einmanalegt að eldast þegar engin börn og barnabörn eru til staðar. Menn geta kallað þessi sjónarmið íhaldssemi og tímaskekkju, eins og kennarar kalla samræmd próf, en þetta er samt ískaldur veruleikinn.

Stjórnmálamenn eru að átta sig á því að ósjálfbærni í fæðingartíðni gengur ekki endalaust. En hugmyndaauðgin er ekki meiri en svo að eina sem þeir leggja til eru aukin útgjöld rikisins til að styðja frekar við foreldra. Ástæða er til að benda stjórnmálamönnum á að sjálfbærni ríkissjóðs er afar mikilvæg. Svo vill það til að í þeim löndum þar sem félagsleg og efnahagslegar forsendur til barneigna eru mestar er fæðingartíðnin minnst. Vestræn lýræðisríki eru fyrir löngu orðin ósjálfbær þegar kemur að fæðingartíðni og það er mesta furða hvað allir þessir sjálfbærnisérfræðingar sem við útskrifum úr háskólum eru sofandi yfir þessari þróun. Hins vegar gæti það verið góð fjárfesting að styðja betur  við fólk til barneigna sem þurfa aðstoð tækningar vegna ófrjósemi. Hér á landi er stór hópur sem þráir að eignast börn en ófrjósemi kemur í veg fyrir það. Til að tryggja sjálfbærni ríkissjóðs væri hægt að draga á móti úr tilgangslausum útgjöldum í loftslagsmarkmiðum sem engu máli skipta fyrir loftslagið á jörðinni.

Það er vinsælt að tala um samfélagslega ábyrgð, einkum annarra en okkar sjálfra. Það er sannanlega samfélagsleg ábyrgð að eignast börn ef geta er til þess og veikindi og erfiðar félagslegar aðstæður standi ekki í vegi fyrir því. Við getum allavega sparað okkur þennan loftslagskvíða, sem virðist hrjá ungt fólk í dag, ef fáir nenna að leggja á sig að eignast börn.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.