Kosningabaráttan hefur fyrst og fremst einkennst af yfirboðum þegar kemur að ríkisútgjöldum og ótrúverðugum og mótsagnakenndum loforðum um ráðdeild í ríkisfjármálum. Líkist þetta barnalegum spurningaleik þar sem keppandinn fellur á prófinu með hverju svarinu. Í þessum leik er það ekki frúin í Hamborg sem borgar brúsann heldur skattgreiðendur.

Samfylkingin og Viðreisn eru þeir flokkar sem hafa staðið sig best í þessum spurningaleik og njóta einnig mestrar hylli í skoðanakönnunum. Samhljómurinn í máli þeirra er mikill. Þessi flokkar tala fyrir endalausri aukningu ríkisútgjalda og á sama tíma segjast þeir ekki ætla að hækka skatta á „vinnandi fólk“ og sýna aðhald í ríkisfjármálum.

Enginn skal efast um ásetninginn þegar kemur að hinu fyrrnefnda. Á sama tíma er hljómurinn holur þegar kemur að því síðarnefnda.

Samfylkingin gengur hreint til verks og býður upp á áttatíu milljarða útgjaldaaukningu sem á að fjármagna með því að auka skattbyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja með hækkun fjármagnstekjuskatts. Þá hefur flokkurinn sett fram ákaflega óljósar hugmyndir um hækkun auðlindagjalda. Þar hlýtur að vera átt við sjávarútveginn og orkugeirann. Sjávarútvegurinn er nú þegar skattlagður upp í rjáfur og trauðla verður séð að skattar verði hækkaðir á greinina frekar án þess að skaða hana til frambúðar. Orkugeirinn er meira og minna í eigu hins opinbera þannig að auknar álögur á hann draga úr arðgreiðslum til ríkisins og heildaráhrifin því lítil.

Ekki er meira vit í stefnu systurflokksins í ríkisfjármálum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur talað fyrir stóraukinni útgjaldaaukningu til heilbrigðismála. Í þættinum Forystusætið í Ríkisútvarpinu í síðustu viku sagðist hún ætla að fjármagna þessa útgjaldaaukningu með sölu ríkiseigna á borð við Íslandsbanka og Landsbankann. Það hefur sjaldan þótt góð hagstjórn að selja eignir til þess eins og að standa undir aukningu rekstrarútgjalda. Hvað ætlar Þorgerður að gera þegar söluandvirðið verður uppurið? Selja bankana aftur? Nei, þá verður ekkert eftir en að hækka skatta á almenning.

Af kosningabaráttunni að dæma virðast frambjóðendur flokkanna ekki fyllilega gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem uppi er í efnahagsmálum. Það hefur hægst mikið á hagkerfinu að undanförnu enda er hátt raunvaxtastig að sliga efnahagslífið. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að verðbólgan er að hjaðna hratt og örugglega og það hefur skapað langþráð svigrúm fyrir Seðlabankann til að lækka vexti.

En að sama skapi er að draga úr tekjum ríkisins vegna skattheimtu vegna minni umsvifa í hagkerfinu. Forsendur fjárlaga næsta árs hvíla á væntingum um töluvert meiri hagvöxt en bankarnir eru að spá. Þetta mun meðal annars endurspeglast í lækkandi tekjum ríkissjóðs.

Fyrsta verkefni næstu ríkisstjórnar verður að draga úr útgjöldum en ekki að auka þau enn frekar. Það er beinlínis nauðsynlegt ætli næsta ríkisstjórn að leggjast á sveif með Seðlabankanum að tryggja mjúka lendingu hagkerfisins eftir þenslutímabil undanfarinna ára.

Hvorki Samfylkingin né Viðreisn virðast hafa neitt að segja um þá stöðu sem er komin upp í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þögn annarra flokka sem mark er á takandi um þetta mál vekur einnig furðu.

Verkefnið fram undan í ríkisfjármálum er að koma böndum á hömlulausa útgjaldaþenslu undanfarinna ára. Það er auðvelt mál að skera niður í ríkisrekstrinum án þess að það bitni á rekstri þeirra grunnkerfa sem pólitísk sátt ríkir um að sé í höndum hins opinbera. Hvorki vandamál heilbrigðiskerfisins né skólakerfisins verða rakin til skorts á fjárframlögum frá ríkinu. Hærri skattar og ríkisafskipti munu ekki tryggja mjúka lendingu í hagkerfinu.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.