Ríkisstjórnin siglir nú inn í sitt síðasta  kjörtímabili. Ef marka má skoðanakannanir og orð þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins eru engar líkur á að flokkarnir endurnýi samstarfið. Formenn og þingmenn stjórnarflokkanna róa nú öllum árum við að vinna til baka fylgistapið sem blasir við í öllum skoðanakönnunum.

Ríkisstjórnin siglir nú inn í sitt síðasta  kjörtímabili. Ef marka má skoðanakannanir og orð þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins eru engar líkur á að flokkarnir endurnýi samstarfið. Formenn og þingmenn stjórnarflokkanna róa nú öllum árum við að vinna til baka fylgistapið sem blasir við í öllum skoðanakönnunum.

Vinstri græn róa lífróður enda stefnir í að flokkurinn þurrkist út af þingi. Sjálfstæðisflokkurinn stendur ekki síður frammi fyrir stórri áskorun því margt bendir til þess að flokkurinn muni fá sína verstu kosningu frá upphafi. Einnig hefur týnst vel af fylgi Framsóknar. Það er því ljóst að stjórnarflokkanna bíður mikil vinna við að koma í veg fyrir afhroð í næstu kosningum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, er meðvitaður um stöðu mála og virðist hafa það að markmiði að draga flokkinn út fyrir ystu mörk vinstri vængsins. Guðmundur réðst nýlega til atlögu gegn smásölum landsins og sagði þá einn helsta verðbólguvaldinn, þó að sú kenning hafi fyrir löngu verið afsönnuð. Hann bætti svo um betur eftir að Landsvirkjun fékk leyfi fyrir vindmylluvirkjunum og sagði blákalt að hann væri á móti því að raforkuframleiðsla sé í höndum annarra en hins opinbera. Hann er sem sagt á móti því að allir aðrir en hið opinbera reisi vindmyllur.

Í gegnum tíðina hefur fjöldi bæjarlækja verið virkjaðir af frumkvæði bænda til að sjá nálægum bæjum fyrir raforku. Ef Guðmundur Ingi fengi að ráða myndi slíkt framtak vera óheimilt nema hinu opinbera dytti í hug að ráðast í slíka framkvæmd. Að sama skapi er Guðmundur Ingi mótfallinn því að HS Orka, eina orkufyrirtækið hér á landi sem er í einkaeigu, fái að framleiða raforku. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr á árinu hafa greiðslur til hluthafa HS Orku verið mun lægri en greiðslur opinbera fyrirtækjanna til sinna eigenda. Þá hefur hlutfallsleg fjárfesting HS Orku verið miklu meiri.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar, hefur ekki heldur látið sitt eftir liggja og sagði í viðtali að ef hann væri seðlabankastjóri myndi hann slaka á lánþegaskilyrðum sem gilda við fasteignakaup. Hann kvaðst vera að reyna að „ýta honum í þá átt“ vegna þess að hann væri sjálfstæður í sínum störfum. Þingmaðurinn, sem er 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur í krafti stöðu sinnar einn fárra landsmanna völd til þess að hlutast til um störf seðlabankastjóra, eða hreinlega svipta hann því sjálfstæði, lýsti því sem sagt opinberlega yfir að hann sé sannarlega að reyna að hafa áhrif á störf seðlabankastjóra. Það er ótalmargt við þessa hegðun Ágústs sem hægt er út á að setja en hann mætti byrja á að líta sér nærri. Ríkisstjórn sem hann er hluti af hefur kynnt undir verðbólgu með gegndarlausu útgjaldafylleríi og hallarekstri. En í stað þess að líta í eigin barm hjólar hann í Seðlabankann, sem hefur í yfir tvö ár staðið einn í baráttunni við verðbólguna.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, steig einnig fram og sagði umræðu um ríkisfjármálin vera á villigötum. Ríkisfjármálin hafi hjálpað til við að draga úr verðbólgu í landinu og afkomubati ríkissjóðs ár frá ári sé birtingarmynd aðhalds í ríkisfjármálunum. Ríkisfjármálin hafi hjálpað til við að draga úr verðbólgu undanfarin tvö ár, að lágmarki. Þessi óskiljanlega málsvörn Bjarna stenst auðvitað enga skoðun og hálf ótrúlegt að sjá formann Sjálfstæðisflokksins verja stóraukin ríkisútgjöld og viðurkenna ekki að þessi útgjöld eigi stóran þátt í verðbólgunni.

Spennandi verður að sjá hvort þessi ummæli formannanna og þingmannsins hjálpi til við að rétta af fylgi flokka þeirra. Viðskiptablaðið leyfir sér að efast um það, enda sér flest fólk væntanlega í gegnum þá þvælu sem þeir bera í þessum tilfellum á borð fyrir kjósendur. Raunar má heldur gera ráð fyrir að þeir séu að grafa sig enn dýpra ofan í holuna.

Leiðarinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.