Mikið er ritað um notkun gervigreindar og er þar notkun vinnumarkaðarins ekki undanskilin. Í upphafi þeirrar gervigreindarbylgju sem nú stendur yfir, þótti undirrituðum umræðan einkennast af spennu fyrir tækifærunum sem gervigreindin gæti skapað. Undanfarið virðist umræðan þó í síauknu mæli hafa færst í átt að mögulegum vanköntum og áhættu sem tengist notkun gervigreindar á vinnumarkaði. Ekki er ólíklegt að þetta sé að vissu leyti tilkomið vegna aukinnar umræðu um gervigreindartilskipun Evrópusambandsins (Regulation (EU) 2024/168).
Notkun gervigreindar og tækifærin
Nýleg rannsókn frá Becker Friedman Institute for Economics hjá Chicago háskóla[1], leiddi það í ljós að hátt hlutfall starfsfólks nýtir sér almennu gervigreindarlausnina, ChatGPT í störfum sínum. Rannsóknin byggir á gögnum frá 100.000 einstaklingum í Danmörku, Notkun svarenda er mismikil milli starfsstétta en til dæmis má nefna að af þeim sem svöruðu höfðu 64% blaðamanna nýtt sér lausn OpenAI við störf sín, 65% markaðsfulltrúa, 63% forritara, 55% sérfræðinga í upplýsingatækni og 45% af mannauðsfulltrúum. Þau sem svöruðu voru bjartsýn um þá auknu hagkvæmni sem gæti náðst með ChatGPT og töldu að lausnin gæti fækkað vinnustundum um helming í um þriðjungi verkefna sinna. Í annarri rannsókn[2] sem kom út í september á þessu ári þar sem tæplega 5.000 forritarar fengu aðgang að GitHub Copilot, gervigreindarlausn sem aðstoðar við hugbúnaðarþróun, var niðurstaðan sú að fjöldi kláraðra verkefna meðal forritaranna jókst um 26%. Þá voru forritarar með minni reynslu líklegri til þess að nota lausnina og afkastaaukning þeirra meiri.
Starfsumhverfi þar sem framsýn notkun á gervigreindarlausnum blómstrar
Ef reyna á að fanga þau tækifæri sem gervigreindarlausnir eins og ChatGPT geta veitt er samstarf stjórnenda og starfsmanna lykilatriði. Enginn er í betri stöðu til þess að koma auga á þau verkefni sem hægt er leysa með hagkvæmari hætti með aðstoð gervigreindalausna en starfsmenn sem sinna þeim verkefnum daglega. Lykilhlutverk stjórnenda í því samhengi er að skapa starfsumhverfi sem gerir öðrum starfsmönnum fært að prufa sig áfram með gervigreindarlausnir og eiga hreinskipt samskipti um kosti og galla gervigreindarinnar, ásamt því að búa til vettvang fyrir starfsmenn að deila reynslu sinni – öllum til hagsbóta.
Til þess þarf í fyrsta lagi að draga úr óvissu starfsmanna um hvaða leikreglur gildi um notkun gervigreindar innan vinnustaðarins. Hér er einkar mikilvægt að leikreglurnar taki ekki einvörðungu mið af því hvað þurfi að varast heldur innihaldi einnig hvatningu til starfsmanna til notkunar. Reglur er mikilvægar, en vanhugsuð boð og bönn getur leitt til þess að starfsmenn hætta við að skoða alla þá möguleika sem gervigreindin hefur fram að færa eða sem mögulega verra er, sleppa því að deila reynslu sinni með öðrum innan vinnustaðarins. Í öðru lagi þarf réttur hvati að vera til staðar fyrir starfsfólkið. Starfsmönnum má ekki líða eins og að með aukinni hagkvæmni sé það að gera starf sitt óþarft. Það getur verið miserfitt fyrir stjórnendur að veita starfsfólki slíka hugarró en vert er að velta því upp hvort að á framsæknum vinnustað ætti aukin hagkvæmni við einstök verkefni ekki að leiða til aukinna umsvifa fyrir fyrirtækið í heild frekar en fækkun starfsmanna.
Næstu skref
Fólk á vinnumarkaði er eðlilega að prófa sig áfram með gervigreindarlausnir og velta fyrir sér hugsanlegum tækifærum sem þær lausnir bjóða upp á. Sú notkun á sér gjarnan stað burt séð frá því hvort fyrirtækið hafi markað sér stefnu um notkunina eður ei. Undirritaðir hvetja því fyrirtæki og stofnanir til að setja sér viðeigandi gervigreindarstefnu sem eflir starfsmenn í ábyrgri notkun á gervigreind og hvetur þá til þess að hámarka hugsanlegan ávinning tækninnar.
Höfundar
Ævar Hrafn Ingólfsson og Árni Snær Fjalarsson eru lögfræðingar hjá KPMG Law