Sem fyrr segir þá vakti athygli að Ríkisútvarpið fjallaði um málefna íranskra kvenna í þetta sinn án þess að ræða við Höllu Gunnarsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ. Þetta leiðir hugann að því hvernig fréttastofan og að sjálfsögðu aðrir fjölmiðlar velja sér viðmælendur og álitsgjafa og hvort að einhver sérstök innsýn þeirra í viðfangsefnið ráði þar nokkru um.

Fréttatímar hafa þannig verið barmafullir af viðtölum við boðbera almæltra tíðinda um komandi formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum. Margir fletir eru á því máli og má í því samhengi hrósa ágætri frétt í Morgunblaðinu á mánudag þar liðskönnun var gerð á meðal þingmanna í aðdraganda formannskjörsins. Liðskönnunin var vissulega fréttnæm en ekki verður það sama sagt um viðtöl við stjórnmálafræðinga og áhugamenn um stjórnmál þar sem fram kom augljós sannindi á borð við að það heyri til tíðinda ef Bjarni Benediktsson tapi kosningunum og fabúleringar um hvort að það breytir einhverju fyrir stjórnarsamstarfið ef Guðlaugur Þór Þórðarson stendur uppi sem sigurvegari.

Í þessu samhengi má nefna að fréttastofa RÚV leitaði til Guðmundar Hálfdánarsonar sagnfræðings til þess að varpa ljósi á þau tíðindi sem felast í framboði Guðlaugs.

Guðmundur er sem kunnugt er mikilsmetinn sérfræðingur í sjálfstæðisbaráttunni og þjóðernishyggju 19. Aldar og er ekki þekktur fyrir rannsóknir á síðari tíma sögu Sjálfstæðisflokksins. Kunnastur er hann þó fyrir merkilega kenningu um að sjálfstæðisbarátta Íslendinga hafi ekki verið barátta fyrir frelsi íbúa landsins, heldur þvert á móti barátta ráðandi afla hér gegn því að íslenskur almúgi fengi sama frelsi og aðrir íbúar Danaveldis, svo sem. atvinnufrelsi, ferðafrelsi, trú-, félaga-, og almennt athafnafrelsi. Það er að sjálfstæði landsins væri nauðsynlegt í þeim tilgangi að viðalda aldargömlu helsi almennings hér á landi.

Reyndar má rifja það upp að Guðmundur hefur verið að fenginn sem álitsgjafi vegna afar fjölbreyttra mála. Þannig hefur hann iðulega verið í fjölmiðlum að tjá sig Evrópumál, bandarískt stjórnmál og um álit sitt á að starfsmenn bankasýslunnar hafi fengið flugeld, sem fullyrt er að sé umdeildur í nýlegum leiðara Kjarnans, að gjöf og rauðvínsflöskur í tengslum við útboð Íslandsbanka. Segja að má að Guðmundur geti „leyst flestar stöður á vellinum“ svo gripið sé til knattspyrnumáls og minnir um margt á James Milner og Luis Enrique í þeim efnum. Þar með er hann umtalsvert fjölhæfari en margir aðrir leikmenn á vinstri vængnum þegar kemur að liði álitsgjafa.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 27. október 2022.