Árið 2024 bar með sér kaflaskil á íslenskum vinnumarkaði þar sem langtímasamningar náðust fyrir efnahagslegan stöðugleika. Stöðugleikasamningarnir eru fjögurra ára kjarasamningar með þau markmið að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun.

Verðbólgan hefur nú þegar minnkað og vaxtalækkunarferillinn er hafinn. Nýafstaðnar alþingiskosningar fjölluðu að miklu leyti um efnahagslegan stöðugleika og jafnvægi í ríkisfjármálum og fram kom í kosningabaráttu flokkanna að flestir þeirra sem nú sitja á Alþingi vildu hallalausan ríkisrekstur árið 2026.

Vonir atvinnulífsins eru því að við höldum áfram á réttri leið.

Fimm atriði hafa veruleg áhrif á aukna hagsæld, tækifæri og verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi til lengri tíma:

1. Efnahagslegur stöðugleiki

2. Samkeppnishæfur útflutningsgeiri

3. Mannauður og sterkt samfélag,

4. Tæknin

5. Græn orka og grænar lausir.

Hagkerfi Evrópusambandsins stendur frammi fyrir alvarlegum vanda um þessi áramót líkt og lesa má í skýrslu Mario Draghi um framtíð evrópskrar samkeppnishæfni. Ein af megin orsökum lélegrar samkeppnishæfni er hátt orkuverð sem stendur í vegi fyrir vexti og getu evrópskra fyrirtækja til þess að ná árangri

Á Íslandi hefur staðan verið betri þar sem raforkuverð hefur verið hagkvæmt og hagvöxtur undanfarin ár hlutfallslega meiri en bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Ísland er eitt grænasta verðmætasköpunarland heimsins. Það kristallast ágætlega í því að ef öll framleiðsla heimsins færi fram á Íslandi myndi kolefnisspor mannsins vera tæpur þriðjungur af núverandi losun.

Íslenskt atvinnulíf hefur skýra sýn. Við viljum ná árangri í loftslagsmálum og við viljum bæta lífskjör. Grunnforsenda þess að ná árangri er aukin græn hagkvæm orkuframleiðsla. Stærsta loftslagsverkefni heimsins er orkuskipti þar sem 73% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda má rekja til orkunotkunar. Ég endurtek, verkefnið er orkuskipti en ekki að draga úr orkunotkun.

Orka knýr áfram hagkerfi heimsins og orka er þannig undirstaða hagsældar á heimsvísu, eftir því sem orkunotkun landa eykst, eykst landsframleiðsla og lífskjör batna. Stóra áskorunin er að skilja á milli orkunotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þar hefur Ísland sérstöðu.

Ísland hefur nú þegar náð að aftengja frumorkunotkun frá losun. Hátt í 90% af orkuframboði landsins er endurnýjanleg orka sem við framleiðum sjálf en verkefninu er sannarlega ekki lokið því án þriðju orkuskiptanna flytjum við enn árlega inn yfir milljón tonn af olíu.

Þegar við horfum til framtíðar í orkumálum á Íslandi þá er það ekki bara evrópsk samkeppnishæfni sem er í vanda heldur líka sú íslenska. Atvinnulífið býr við skerðingar á raforku með tilheyrandi tapi útflutningstekna og atvinnulífið sér fram á orkuskort með hliðsjón af spá um raforkunotkun og orkuskipti.

Tölurnar tala sínu máli og miðað við full orkuskipti árið 2050 þá þarf að ríflega tvöfalda orkuframboð á Íslandi. Það er því álíka mikilvægt að ný ríkisstjórn leggi áherslu á öflun grænnar hagkvæmrar orku, eins og efnahagslegan stöðugleika. Það var ánægjulegt að sjá að þeir stjórnmálaflokkar sem nú sitja á Alþingi sögðust hlynntir aukinni grænni orkuöflun í kosningabaráttunni.

Það þarf hins vegar að láta kné fylgja kviði og ryðja hindrunum úr vegi grænnar hagkvæmrar orku. Staðreyndin er sú að orkufyrirtækin hafa viljað fjárfesta en stjórnsýsla orkumála og þunglamaleg leyfisveitingaferli hafa verið Þrándur í götu þeirra.

Það verður að endurskoða rammaáætlun eða lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ísland er með heimsins bestu forgjöf í grænni orkunotkun en ekkert land innan OECD virðist hafa sett sér jafn langa og ógagnsæja umgjörð fyrir leyfisveitingar í orkugeiranum eins og Ísland. Það er fullreynt að fylgja rammaáætlun.

Markmið Íslands í loftslagsmálum eru mikilvæg og þau varða leiðina. Þau þurfa þess vegna að vera raunhæf og sanngjörn. Ein megináhersla stjórnvalda, hérlendis og í Evrópu hefur verið á að „þeir borgi sem menga“.

Kolefnisskattar á Norðurlöndunum eru með þeim hæstu í heiminum. Við vitum að skattar hafa áhrif á hegðun en ótímabær eða óraunhæf skattlagning gerir það ekki, hún dregur úr samkeppnishæfni og verðmætasköpun. Gjöld og skattar skila ekki árangri ef græn tækni eða græn orka er ekki til staðar. Jákvæðir hvatar geta hins vegar gert það.

Áherslu á græna orku og grænar lausnir á heimsvísu fylgja áskoranir en jafnframt fjölmörg tækifæri til verðmætasköpunar.

Framtíðarsýnin er svo sannarlega græn, en við náum henni ekki á kostnað lífskjara og ekki án orku. Á nýju ári þurfum við að vera samtaka um stór skref sem tryggja næga græna hagkvæma orku til framtíðar og þannig byggja undir næsta vaxtarskeið Íslands.