Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku birtist eftirtektarverð fréttaskýring um útgáfu grænna skuldabréfa og innleiðingu flokkunarreglugerðar ESB hér á landi. Tilgangur flokkunarreglugerðar ESB er að koma á fót samræmdum og stöðluðum ramma til að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum, þar sem skilgreint er hvaða tiltekna atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær eða græn og koma þannig í veg fyrir grænþvott.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku birtist eftirtektarverð fréttaskýring um útgáfu grænna skuldabréfa og innleiðingu flokkunarreglugerðar ESB hér á landi. Tilgangur flokkunarreglugerðar ESB er að koma á fót samræmdum og stöðluðum ramma til að stuðla að sjálfbærum fjárfestingum, þar sem skilgreint er hvaða tiltekna atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær eða græn og koma þannig í veg fyrir grænþvott.

Sprenging hefur orðið í útgáfu grænna skuldabréfa hér á landi á undanförnum árum. Það ætti ekki að koma á óvart svona í ljósi þess að flest það sem menn taka sér fyrir hendur hér á landi er tiltölulega umhverfisvænt og sjálfbært í hinu stóra samhengi hlutanna.

En eins og er fjallað um í Viðskiptablaðinu þá eru lán íslenskra banka og lífeyrissjóða til kaupa á húsnæði sem er kynt með heitu vatni og á sjálfbæran hátt alls ekkert græn samkvæmt skilgreiningum ESB. Það sama gildir um lán til kaupa á rafmagnsbíl svo annað dæmi sé tekið.

Haft er eftir Hreiðari Bjarnasyni, fjármálastjóra Landsbankans, í umfjölluninni að flokkunarreglugerð ESB horfi eingöngu til hversu orkuhagkvæmt húsnæði er en ekkert um það hvaðan orkan sem notuð er til hitunar kemur og hvort hún sé græn eða ekki. Með öðrum orðum getur banki sem er starfræktur á meginlandi Evrópu stært sig yfir að vera sérlega grænn og sjálfbær vegna lánveitinga til kaupa á húsnæði sem er kynt með kolum á meðan íslenskir bankar geta ekki gert slíkt hið sama vegna lánveitinga fyrir kaupum á húsnæði sem er kynt með sjálfbærri varmaorku.

Sem kunnugt er hafa íslensku bankarnir veitt viðskiptavinum sínum sérstakar ívilnanir þegar lánað er til kaupa á rafbílum. Það er í grænum tilgangi enda hafa menn gengið út frá því að slíkar lánveitingar séu umhverfisvænar. Þeir þurfa að lesa flokkunarreglugerðina betur. Samkvæmt henni eru þau það ekki. Ástæðan fyrir því er að bankarnir hafa ekki upplýsingar um veltiviðnámsstuðul dekkja viðskiptavina sinna.

Kjarni málsins er að reglugerðin var innleidd áður en hugað var að söfnun þeirra upplýsinga sem flokkunarkerfið nær til. Þannig er ekki til staðar nein orkuflokkun á húsnæði hér á landi en Ísland nýtur fullrar undanþágu frá orkunýtingartilskipuninni svokallaðri.

Í grein sem Margrét Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri sjálfbærni- og loftlagsmála hjá Deloitte, birti í þessu blaði síðasta desember er fjallað um æðibunugang stjórnvalda þegar kom að innleiðingu flokkunarreglugerðarinnar. Þar segir:

„ Í aðdraganda lagasetningarinnar á árinu 2022 bentu ýmsir aðilar á að mögulega ætti að veita aðlögunarfrest. Það töldu stjórnvöld óþarft þar sem breytinganna hafi verið beðið lengi. Nú er hins vegar að koma í ljós að stjórnvöld sjálf hefðu mögulega getað nýtt þann frest til undirbúnings við innleiðingu reglugerðarinnar.“

Þetta bendir til þess að íslenskum embættismönnum hafi legið á að innleiða reglugerðina án þess að skeyta nokkuð um áhrif og afleiðingar. Á sama tíma hafa ráðherrar og þingmenn í engu skeytt um hvað væri verið að innleiða. Í áðurnefndri fréttaskýringu er haft eftir Hlédísi Sigurðardóttur, forstöðumanns sjálfbærni hjá Arion, að flokkunarreglugerðin hafi í ofanálag verið innleidd með öðrum hætti hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum.

Þrátt fyrir þetta klúður eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar enn að stíga fram og lýsa því yfir að markmiðið sé að ganga enn lengra en Evrópusambandið í sjálfbærnisókn sinni. Það er greinilegt að áhyggjur þeirra af blýhúðun við innleiðingu Evrópugerða ristir ekki sérlega djúpt hjá þessum ráðherrum.

Það er löngu orðið tímabært að menn staldri við og fari að ræða um framlag Íslands í baráttunni gegn loftslagsbreytingum út frá þeirri staðreynd að íslenska hagkerfið er nú þegar áratugum á undan öðrum þróuðum hagkerfum þegar kemur að sjálfbærni og baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu 10. júlí 2024.