Verðtrygging lánsfjár er eins og svo oft áður komin á döfina á ný en í fyrradag bárust af því fréttir að Umboðsmaður Alþingis hefði nú til athugunar erindi Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem samtökin hafa kvartað undan því að reglur Seðlabankans um útreikning verðbóta standist ekki lög. Ástæðan er sú að reglum Seðlabankans segir að reikna eigi verðbætur út frá höfuðstól láns en í lögum segir að verðbæta eigi greiðslu lánsins, þ.e. afborgun og vexti.
Margir telja þetta einu gilda enda hljóti það að koma í sama stað niður hvort verðbætur séu miðaðar við höfuðstól eða greiðslu. Þannig hefur Viðskiptablað Morgunblaðsins það eftir Stefáni Inga Valdimarssyni, stærðfræðingi, að „Leiðirnar skila hins vegar sömu niðurstöðu, þ.e. að þegar upp er staðið greiðir lántaki sömu heildarupphæð burtséð frá því hvaða aðferð er notuð til að reikna út verðtryggingu og verðbætur."
Þar sem ég hef undanfarin ár reynt að gera mig gildandi í umræðunni um verðtrygginguna, bæði sem blaðamaður á Morgunblaðinu og svo hér á Viðskiptablaðinu, finnst mér ég tilneyddur að leggja orð í belg enda er þetta alrangt hjá Stefáni Inga. Eftirfarandi myndir (ath. að smella á myndirnar til þess að stækka þær) sýna tvö mismunandi dæmi, sú fyrri sýnir dæmi þar sem verðbætur eru reiknaðar út á greiðslur
© Guðmundur Sverrir Þór (GSÞ)
og sú síðari sýnir dæmi þar sem verðbætur eru reiknaðar út á höfuðstól
© Guðmundur Sverrir Þór (GSÞ)
Miðað er við milljón króna lán, á 3% vöxtum, sem greiða á á einu ári. Afborganir í fyrra dæminu eru reiknaðar þannig að lánsupphæðinni er skipt í 12 hluta en í síðara dæminu er höfuðstól með verðbótum deilt í jafnmarga hluta og gjalddagar eru ógreiddir. Vísitalan í dæminu er sett saman af undirrituðum.
Eins og myndirnar sýna þá munar þarna talsverðum fjárhæðum. Ástæðan er einföld. Verðbætur eru, líkt og vextir, hlutfallsbreyting og þá skiptir upphæðin sem hlutfallið er reiknað af auðvitað máli. 10% af 100 eru 10 og 10% af 1.000 eru 100. Þess vegna skiptir það máli hvort þú reiknar verðbæturnar af höfuðstólnum eða af greiðslunum sem að sjálfsögðu eru mun lægri.
Ég er ekki lögfróður maður og hef engar forsendur til þess að meta hvort reglur Seðlabankans um útreikning verðbóta standist lög. Sömuleiðis tel ég málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna og formanns þeirra um verðtryggingu um margt vera meingallaðan. Í þessu tiltekni máli hafa þau þó rétt fyrir sér í því að umtalsverðir hagsmunir eru fólgnir í því að fá úr því skorið hvort reglurnar standist lög.