Þegar Ronald Regan sagði: If it moves, tax it. If it keeps moving, regulate it. And if it stops moving, subsidize it. var hann vafalaust með í huga stjórnarfar í líkingu við það sem valkyrjurnar, hið nýja þríeyki, bjóða upp á nú um stundir.
Áhersla á aukna skattheimtu er miklu mun meiri en kjósendur gátu gert ráð fyrir, hafandi hlustað á fagurgala þeirra sem nú leiða, í aðdraganda kosninga og við myndun ríkisstjórnarinnar..
Orð forsætisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, um að veiðigjöld væri raunhæft að tvöfalda á 10 ára tímabili, í góðu samráði við hagaðila eldast ekki vel og því síður orð utanríkisráðherra, formanns Viðreisnar, þess efnis að ekki stæði til að „hækka tekjuskatt á fólk“ og hélt svo áfram , „við ætlum ekki að hækka skatta á lögaðila“.
Raunin er að veiðigjaldið áformuðu valkyrjurnar að tvöfalda með einu pennastriki og breyttar reglur um samsköttun hjóna eiga að skila vel á þriðja milljarð í ríkissjóð. Aðhald á tekjuhliðinni kalla þær það.
Það sem síðar hefur birst okkur er Orwellsk nálgun, þar sem „Stríð er friður. Frelsi er ánauð. Fáfræði er styrkur.“, skattahækkun er leiðrétting. Það er verið að „loka glufum“, þar sem engar voru, nú eða það sem best er, „tryggja að þeir sem noti borgi“ með enn auknum álögum á akstur og ökutæki þó að miklu muni á þeim skatttekjum sem skila sér í kassann og því sem varið er til nýframkvæmda og viðhalds (og er virðisaukaskatturinn þó utan við þá jöfnu).
Færibandið frá Brussel
Það er því miður á fleiri sviðum sem boginn er spenntur til fulls hvað varðar að þrengja að fyrirtækjum landsins og í framhaldinu heimilum.
Færibandið frá Brussel skilar okkur linnulausri reglusetningu um hið ýmsa. Þegar pakki dagsins er dottinn af færibandinu taka embættismenn og eftir atvikum ráðherrar sig til og bæta eigin hugðarefnum við. Gullhúðunin. Bölvuð gullhúðunin.
Litið mál er varðar afhúðum var rætt í síðustu viku í þinginu. Það varðar umhverfismat framkvæmda.
Partur af umræðunni hverfðist um hvernig best væri að vinda ofan af hinum kostnaðarsama óþarfa sem gullhúðunin orsakar.
Í þeim efnum er bara ein boðleg leið. Köllum hana „Kill 'Em All“ – berjum gullhúðina alla af.
Ef síðar kemur í ljós að eitthvað af séríslensku reglunum hafi verið til gagns, eða skynsamlegar, þá tökum við nýja ákvörðun um að viðhafa þann hátt á til framtíðar. Gallinn er bara sá að séríslensku reglurnar virðast fyrir algera tilviljun alltaf falla í þá átt að vera meira íþyngjandi en forskriftin frá Brussel.
Þeir sem telja þessa nálgun, gullhúðunina, þjóna hagsmunum lands og þjóðar verða þá að taka sér tak og gefa kost á sér til Alþingis. Mig grunar að hófleg stemming verði fyrir frambjóðendum sem segja það upphátt að þeir vilji viðhafa snúnara regluverk fyrir íslenskt atvinnulíf en samkeppnisþjóðirnar búa við. Gallinn er að gullhúðunin á sér að mestu stað í kyrrþey.
Auðvitað ættu ráðherrar að stoppa svonalagað þegar innleiðingatexti birtist þeim, en þeir virðast sjaldnast gera það og verða svo voða hissa þegar afleidd áhrif reglusetningarinnar koma fram.
Afnema ruglið
Ágæt skýrsla sem unnin var í umhverfisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili, þegar menn fundu tíma frá vinnu við reglugerðarsmíð um kynlaus klósett og vinnu við aðgerðaráætlun í 150 liðum til að draga úr hagvexti, getur verið ráðherrunum skapalón í þessum efnum. Þetta er semsagt hægt.
Nú ættu allir ráðherrarnir að einhenda sér í þá vinnu að greina hvar gullhúðunin liggur innan málaflokka hvers ráðuneytis og forma í framhaldinu frumvörp sem afnema ruglið og óþarfann á einu bretti.
Í þeirri vinnu getur skipt máli að þeir sem komu gullhúðuninni á verði ekki leiðandi í því verkefni að berja hana af.
Heilt yfir mæli ég frekar með argentískri vélsög í verkið en gúmmísleggjunni sem valkyrjurnar virðast notast við í sínum verkefnum.
Það er nefnilega alltaf rétti tíminn til að lækka skatta og draga úr íþyngjandi regluverki.
Höfundur er formaður þingflokks Miðflokksins.