Svo virðist sem örlítið meira jafnvægi sé að fást í umræðu um meinta yfirvofandi hlýnun loftslags, geigvænlegar afleiðingar hennar og fýsileika þeirra dýru og róttæku aðgerða sem margir telja bráðnauðsynlegt að grípa til. Fréttablaðið sagði til dæmis frá því í gær, á blaðsíðu 8, að Efnahags- og þróunarsamvinnustofnun Evrópu (OECD) hefði komist að þeirri niðurstöðu að áhersla á etanól-framleiðslu gæti valdið skorti á matvælum og hefði þegar valdið verðhækkunum á þeim, enda væri það meðal annars framleitt úr maís. OECD leggur til að ríkisstyrkir til framleiðslu etanóls verði felldir niður. Og stofnunin bendir á að áhugi á lífrænu eldsneyti auki þrýsting á enn frekara skógarhögg á vænlegum ræktunarsvæðum. Þar með geti umhverfislegur ávinningur af því að nota slíkt eldsneyti orðið minni en menn hafi gert sér vonir um. Raunar geti flestar aðferðir sem notaðar eru til að útvega þetta dásamlega eldsneyti haft skaðlegri áhrif á umhverfið þegar allt er talið en ef notuð væri hefðbundin olía og bensín.
Þessi frétt hefur enn ekki ratað í aðalfréttatíma ljósvakamiðlanna í vikunni þegar þetta er skrifað, hvorki aðalfréttatíma Útvarpsins, Sjónvarpsins né Stöðvar 2. Það er dálítið merkilegt með hliðsjón af því að etanól hefur verið mjög í deiglunni vegna ráðstefnu um orkugjafa framtíðarinnar sem hér var haldin í upphafi vikunnar. Í tengslum við hana var meðal annars opnuð fyrsta etanól-orkustöðin á Íslandi. Kom í hlut forseta Íslands að gera það, en hann gerði gott betur og hvatti til þess að ráðist yrði í þjóðarátak um að hætta með öllu að nota olíu og bensín. Nefndi etanól sérstaklega í því sambandi. Og fjármálaráðherra boðaði breytingar á skattkerfinu í þeim tilgangi að auka notkun á "umhverfisvænu" eldsneyti.
Við eftirgrennslan kemur í ljós að Fréttablaðið fann fréttina á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda, þar sem sagt var frá skýrslu OECD á þriðjudag. Skýrslan kom hins vegar út nokkrum dögum fyrr, eða á miðvikudaginn í liðinni viku. Skoðum því aðalfréttatíma ljósvakamiðlanna aftur að þeim degi. Niðurstaðan er sú sama: Engin frétt um hina merku niðurstöðu OECD um að etanól sé að líkindum skaðlegra umhverfinu en olía og bensín. Hins vegar var frétt um það á Stöð 2 á sunnudag að stjórnvöld drægju lappirnar í því að gera "vistvæna" bíla að raunhæfum kosti með skattaívilnunum. Etanól-bílar voru sérstaklega nefndir og sagt að óvíst væri hvenær þeir kæmu á markað vegna þess að enn væri óljóst hvernig þeir yrðu skattlagðir.
Ekki er endilega að öllu leyti við fréttamenn þessara miðla að sakast því vel er hugsanlegt að erlendar fréttaveitur og fjölmiðlar, sem eru meginuppspretta erlendra frétta hér, hafi sýnt málinu lítinn áhuga. En vonandi kynna menn sér þessa skýrslu og segja frá henni í miðlum sínum - eða geta í það minnsta haft hana til hliðsjónar þegar næsta etanól-stöðin verður opnuð.
* * *
Einnig er vert að benda á mjög athyglisverða og í raun sláandi rannsókn á röskun votlendis í Suðaustur-Asíu, en að þeirri rannsókn stóðu hollenska ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækið Delft Hydraulics og samtökin Wetlands International, sem vinna að vernd og endurheimt votlendis. Niðurstöðurnar voru birtar í desember síðastliðnum. Í ljós kom að gríðarleg eyðing fenjaskóga í því skyni að búa til nýtt ræktarland, einkum í Indónesíu, veldur því að óhemjumikið af koltvísýringi gýs upp úr mólögunum í þornuðum fenjunum sökum þess að lífrænt efni sem þar hefur safnast fyrir í þúsundir ára kemst í snertingu við súrefni. Er talið að þessi "útblástur" nemi um 2.000 milljónum tonna af koltvísýringi. Það er hvorki meira né minna en 8% af allri losun vegna olíu- og kolabruna í heiminum. Væri þessi losun talin með væri Indónesía í þriðja sæti yfir þau lönd sem losa mestan koltvísýring, á eftir Bandaríkjunum og Kína.
Og hvers vegna er verið að ryðja þessum fenjaskógum burt? Jú, meðal annars svo að hægt sé að framleiða á svæðinu pálmaolíu sem seld er við dýru verði til Evrópu sem "vistvænt" eldsneyti.
Í skýrslunni segir að hið meinta vistvæna eldsneyti sé af þessum sökum margfalt meira mengandi en venjulegt bensín.
Upp í hugann koma rannsóknirnar sem gerðar hafa verið hér á landi og benda til þess að úr framræstum mýrum gjósi allt að tíu sinnum meiri koltvísýringur en úr öllum bílaflota landsmanna. Sýnt hefur verið fram á að víða má endurheimta votlendið og skrúfa þannig fyrir þennan gríðarlega útblástur. Sagt var frá þessu hér í Viðskiptablaðinu fyrir nokkrum mánuðum. Aðrir fjölmiðlar sýndu málinu nákvæmlega engan áhuga.
* * *
Vonandi veita fréttamenn meiri athygli væntanlegri tímaritsgrein um loftslagsmál eftir Stephen E. Schwartz, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vakti athygli á bloggi sínu í fyrradag. Einar segir að Schwartz þessi færi í greininni fram rök fyrir því að áhrif tvöföldunar á magni koltvísýrings í andrúmsloftinu séu minni en áður hefur verið talið. Einar bendir á að Schwartz er "enginn aukvisi og þaðan af síður einhver loftslags-skeptíker, heldur er hann virtur vísindamaður til margra ára við Brookhaven National Laboratory". Hann ritstýrði meðal annars einum af köflunum í vísindaskýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom út árið 2001.
Einar segir: "Niðurstöður Schwartz nú eru einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi að áhrif gróðurhúsalofttegunda almennt séð eru minni á geislunarjafnvægið en almennt er álitið og þar með á hitastig lofthjúps. Í öðru lagi að tregða vegna uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda er lítil þannig að áhrif þess sem sleppur út nú koma fljótlega fram. Þessar tvær niðurstöður jaðra við byltingu í þessum fræðum eins og nærri má láta." Og niðurstaðan: "Þetta þýðir með öðrum orðum að tvöföldun á CO2 leiðir til hitastigshækkunar á bilinu 0,6 - 1,6°C í stað þeirrar 2,0 - 4,5 stiga hækkunar hita sem almennt hefur verið miðað við síðustu árin."
Spennandi verður að heyra meira af þessu máli í fréttum næstu daga.
* * *
Að lokum: Morgunblaðið sagði frá launakönnun VR á blaðsíðu 2 á föstudaginn var. Í lokin kom fram að samkvæmt könnuninni hefði launamunur aukist. Þau 5% félagsmanna sem hefðu hæst launin væru með 425% hærri laun en þau 5% sem hefðu lægst laun. Bagalegt var að í þessari frétt Morgunblaðsins kom hvergi fram hve mikið launamunurinn hefði aukist.
Við hliðina á þessari frétt sagði Morgunblaðið frá könnun sem Hafnarfjarðarbær hafði látið gera á launum starfsmanna sinna. Fyrirsögn hins kynjaða blaðs var: "Kynbundinn launamunur 6,3% hjá Hafnarfjarðarbæ." Hafi eitthvað þótt merkilegra umræðuefni í sambandi við laun en launamunur þá er það kynbundinn launamunur. Ófá andköf hafa verið tekin yfir því að ekkert gangi að draga úr honum. Þess vegna var merkilegt að Morgunblaðið skyldi ekki setja það í fyrirsögn að samkvæmt könnuninni í Hafnarfirði hafði kynbundinn launamunur minnkað úr 8% árið 2001 niður í 6,3%. Breytingin er sannarlega ekki ýkja mikil - en ætli hún hefði nú ekki samt ratað í fyrirsögn hefði hún verið í hina áttina?