Sú staðreynd að fjöldi kjarasamninga verður laus í haust er farin að setja mark sitt á fjölmiðlaumræðuna. Þannig er eftirtektarvert að verkalýðsleiðtogarnir Ragnar Þór Ingólfsson í VR og Sólveig Anna Jónsdóttir í Eflingu hafa nú þegar lýst því yfir að verkfallsaðgerðir komi vel til greina en Ragnar var til viðtals á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag og Sólveig Anna í morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudag. Verður það að teljast ansi sérstök samningatækni að boða til verkfalla áður en sest er að samningaborðinu.
En Ragnar sagði eitt og annað áhugavert í viðtalinu við Kristján Kristjánsson, þáttastjórnanda Sprengisands, á sunnudag. Þannig var hann nokkuð afdráttarlaus í yfirlýsingum þegar kom að stöðu Drífu Snædal, forseta ASÍ, og sagði líklegt að að breytingar yrðu á forystu Alþýðusambandsins í haust. Fjölmiðlar veittu þessum ummælum ekki mikla athygli. En það kom svo á daginn að Drífa sá sæng sína útbreidda og tilkynnti í gær um afsögn sína úr forsetastóli ASÍ.
Fyrir utan þetta varði Ragnar töluverðum tíma í að klifa á staðreyndarvillum sem fjölmiðlar virðast hafa lítinn áhuga á að hrekja. Það verður að teljast áhyggjuefni í aðdraganda kjarasaminga. Ein af þessum staðreyndarvillum snýr að því að Seðlabanki Íslands sé á einhverri allt annarri vegferð en aðrir seðlabankar á Vesturlöndum þegar kemur að baráttunni gegn verðbólgu. Eins og Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins, gerði ágætlega skil í fréttaskýringu á miðopnu blaðsins á þriðjudag stenst þessi fullyrðing enga skoðun.
Einnig kvað Ragnar stef sem hefur gjarnan heyrst frá verkalýðshreyfingunni undanfarin misseri. Það er að afkoma og arðgreiðslur stærstu smásölukeðja landsins sem eru skráðar í Kauphöllina veiti vísbendingu umtalsvert svigrúm til launahækkana. Þetta er mikil einföldun og í sjálfu sér villandi framsetning sem fjölmiðlar eiga að gera sér grein fyrir. Í fyrsta lagi er arður að jafnaði greiddur vegna afkomu rekstursins í fortíð og hefur því lítið með stöðuna í nútíð að gera. Í öðru lagi verður að líta til framlegðar rekstursins þegar rýnt er í afkomu verslunarinnar. Þó svo að upphæð arðgreiðslna stóru verslunarrisanna sem eru skráðir í Kauphöllina kunni að virðast há þá er það ekki svo þegar litið er til heildarveltunnar.
***
Viðtalið við Sólveigu Önnu var ekki síður áhugavert. Eins og greint var frá í hádegisfréttum Ríkisútvarpið á þriðjudag sakaði Sólveig forystumenn BHM um siðlausan prósentureikning í skjóli nætur – hvað svo sem það þýðir. Í frétt á vef RÚV segir:
„Formaður Eflingar sagði í morgun að BHM hafi umreiknað krónutöluhækkanir yfir í prósentuhækkanir í síðustu kjarasamningsviðræðum og farið leynt með það.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræddi komandi kjaraviðræður í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hún BHM hafa í síðustu viðræðum tekið krónutöluhækkanir láglaunafólks og umreiknað í prósentuhækkanir fyrir félagsmenn sína sem eru á hærri launum.“
Það veit ekki á gott fyrir komandi kjaraviðræður að verkalýðsfélög séu að saka hvert annað um leynda prósentuútreikninga án samráðs og samstarfs.
***
Meira af verkalýðshreyfingunni: Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á þriðjudag var sagt frá því að Efling hefði ekki staðið skil á skatt- og lífeyrisgreiðslum starfsmanna frá því að fjármálastjóri félagsins hætti störfum í byrjun sumars. Fram kom í fréttinni að í skriflegu svari til fréttastofunnar segir Sólveig Anna formaður að gjöldin hafi ekki skilað sér á áfangastað vegna mistaka.
Einhvern tíma hefði verið talað um „launaþjófnað“ og digurbarkaleg orð höfð uppi af hálfu verkalýðshreyfingarinnar en ekki mistök. En það er önnur saga.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst 2022.