Það eru ánægjuleg tíðindi að veruleg aukning varð í sölu nýrra fólksbíla á síðasta ári og nam hún rétt um 56% miðað við árið 2011. Salan fór úr 5.054 nýjum bílum árið 2011 í 7.902 bíla árið 2012. Nýtt bílaár byrjar með miklum látum og umboðin hafa verið dugleg að bjóða upp á frumsýningar á nýjum bílum nú fyrstu þrjár vikurnar í janúar. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir íslenska bílaáhugamenn og sýnir að nokkur meiri bjartsýni ríkir nú en síðustu ár.

Annað árið í röð er Hekla stærsta bifreiðaumboð landsins þegar teknar eru saman tölur yfir selda nýja bíla á árinu 2012. Hekla seldi 2.007 fólksbíla á síðasta ári og er þar af leiðandi með 25,4% markaðshlutdeild. Ríflega fjórð- ungur nýskráðra bíla á Íslandi kom frá Heklu. Söluhæsta einstaka bílamerkið var sem fyrr Toyota með 1.329 bíla.

Í öðru sæti er hástökkvari ársins, Volkswagen með 1.065 bíla selda og í því þriðja er Kia með 752 bíla.

Ef skoðuð er sala eftir umboðum er Hekla langsöluhæst með 2.007 bíla, Toyota og Lexus með 1.356 og BL með 1.299. Árið 2011 var Hekla með 1.170 bíla selda, Toyota og Lexus með 778 og BL með 890 bíla. Hekla heldur því fyrsta sætinu annað árið í röð en Toyota nær öðru sætinu af BL.

Mestur hlutfallslegur vöxtur hjá Öskju

Mestur hlutfallslegur vöxtur í sölu milli ára var hjá Öskju, sem selur Kia- og Mercedes bíla og nam hann 102%. Salan jókst um 94% hjá Brimborg, 74% hjá Toyota, 72% hjá Heklu og 65% hjá Bernhard. Mestur vöxtur hinsvegar í bílum talið milli áranna 2012 og 2011 var hjá Heklu sem seldi 837 bílum meira. Næst mesta aukningin í bílum talið var 578 hjá Toyota, þá 448 hjá Öskju, 418 hjá Brimborg og 409 bílar hjá BL.

Hæstu markaðshlutdeild á Íslandi árið 2012 hafði Hekla með 25,5% hlut eins og áður segir, sem óx frá árinu 2011 um 2%. Næstmesta hlutdeild hefur Toyota, eða 17,2% og óx hún um 1,6% milli ára. Í þriðja sæti er BL með 16,5% hlutdeild sem fellur um 1,4% milli ára. Í fjórða sæti er Askja með 11,3% og óx hún um 2,5% frá 2011.

„Markaðshlutdeild Heklu hefur ekki verið svona mikil í áraraðir og hefur verið stigvaxandi allt árið. Hlutdeild Volkswagen í nýjum bílum árið 2012 er sú mesta á þessari öld eða 13,5%,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri í Heklu.