Helga Sigrún Harðardóttir hefur tekist á við það erfiða hlutverk að taka við sem andlit og framkvæmdastjóri SMÁÍS. Hún tekur þar við kyndlinum úr hendi Snæbjörns Steingrímssonar. Eitt fyrsta verkefni hennar var að svara fyrir að samtökin hafa kært fyrrverandi framkvæmdastjórann fyrir fjárdrátt til sérstaks saksóknara.
Helga hefur í kjölfarið haldið því fram að málið dragi ekki úr trúverðugleika samtakanna. Glöggir lesendur Viðskiptablaðsins muna eflaust eftir því neyðarlega máli þegar upp komst að samtökin greiddu ekki fyrir notkun á hollenskum hugbúnaði í nokkur ár þrátt fyrir samninga þar um. Leystist úr málinu og skuldin gerð upp eftir að málið komst í fjölmiðla. Það er erfitt að tapa trúverðugleika sem þegar er glataður. Víst er að samtök hafa breytt um nafn og farið í ímyndarherferðir af minna tilefni.
Huginn & Muninn birtist í Viðskiptablaðinu 5. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .