Sú staðreynd að flokkarnir sem voru kjörnir á þing standa frammi fyrir nokkuð fjölbreyttum kostum þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun sýnir að þeir sem segja niðurstöðu kosninganna vera skýrt ákall kjósenda um eitthvað sérstakt eru á villigötum. Í fljótu bragði virðist eina greinilega ákallið vera um að stjórnvöld láti hendur standa frammi úr ermum í orkumálum enda var enginn þeirra flokka sem höfðu uppi efasemdir um að það þyrfti að virkja meira kjörinn á þing.

Einhugur virðist ríkja meðal leiðtoga Flokk fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar um að mynda nýja stjórn. Nafnið Valkyrjustjórnin er nú þegar farið að heyrast. Valkyrjur eru skjaldmær á mörkum jarðneskrar og yfirnáttúrulegrar tilveru sem ráða úrslitum í orrustum en hugtakið er einnig notað yfir vaskar konur sem berjast ákaft fyrir einhverjum málstað.

Þá er spurningin: Fyrir hvaða málstað munu þær Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir koma sér saman um að berjast fyrir? Svarið við þeirri spurningu er ekki augljóst.

Samfylkingin hefur nú þegar boðað skattahækkanir og aukin ríkisútgjöld. Auðlindagjöld af öllum toga á að margfalda og flokkurinn vill fara með fjármagnstekjuskatt upp í 25%. Var þessi aðgerð kynnt í tengslum við aðgerðapakka flokksins í húsnæðismálum í aðdraganda alþingiskosninganna. Það er mótsagnakennt og má benda á ágæta skýrslu Hagfræðistofnunar sem kom út á dögunum í þeim efnum. Þar er rakið með ítarlegum hætti hvernig skattlagning á nafnvexti fjármagnstekna hafi meðal annars aukið eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sem fjárfestingarkost. Eitthvað sem Samfylkingin segist
berjast á móti.

Flokkur fólksins talar einnig fyrir hugmyndum sem myndu stórauka útgjöld ríkissjóðs til frambúðar. Það sem flokkurinn segir vera forgangsmál mun kosta ríkissjóð hundruð milljarða á ári hverju.

Á sama tíma hefur Viðreisn ekki talað fyrir skattahækkunum – að minnsta kosti ekki síðustu vikurnar fyrir kosningar. Flokkurinn var jafnframt einn af fáum sem sáu tækifæri til hagræðingar í ríkisrekstrinum. Slík tækifæri eru á hverju strái. Nærtækt væri að byrja í Stjórnarráðinu. Þar hefur stöðugildum fjölgað um 157 á sjö árum og starfa nú 637 í ráðuneytum landsins. Þetta er um 30% fjölgun. Starfsmönnum Alþingis hefur fjölgað um 60% frá aldamótum og hefur kostnaður við þinghaldið tvöfaldast á þessum tíma. Fleiri dæmi eru um ofvöxt í ríkisrekstrinum. Árið 2017 störfuðu 17 hjá Framkvæmdasýslunni en í dag eru starfsmennirnir 77.

Hafa verður í huga að verkefni stofnana hins opinbera ættu að vera í föstum skorðum og breytast lítið frá ári til árs. Þar af leiðandi er þessi ofvöxtur starfsmannahalds nánast óskiljanlegur.

Forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að koma böndum á hallarekstur ríkisins. Allar líkur eru á því að hann aukist með sjálfkrafa hætti þar sem skatttekjur eru að dragast saman með þverrandi efnahagsumsvifum.

Þrátt fyrir þetta er útlit fyrir mjúka lendingu – það er að segja ef ný ríkisstjórn heldur rétt á spilunum. Verðbólgan er á niðurleið og svigrúm Seðlabankans til vaxtalækkana eykst stöðugt að öllu öðru óbreyttu. Sýni ný ríkisstjórn ábyrgð og festu við stjórn ríkisfjármála er útlit fyrir að hagkerfið sýni kröftuga viðspyrnu í náinni framtíð.

Slíkri viðspyrnu verður hins vegar ekki náð ef erindi nýrrar ríkisstjórnar verður að ráðast í skattahækkanir á fyrirtæki og heimili og ráðist verður í glórulausa útgjaldaaukningu til frambúðar. Ákallið er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum eftir kosningarnar geri sér grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd.

Þessi leiðari birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 4. desember 2024.