Kristrún Frostadóttir er ein þeirra sem sitja í fjárlaganefnd. Ólíkt okkur almenningi fékk nefndarmaðurinn nákvæma og ítarlega kynningu á fyrirhuguðu útboði Bankasýslunnar á hlutum í Íslandsbanka í lok mars.
Það verður að segjast í fullri hreinskilni að það er óskaplega vandræðalegt fyrir Kristrúnu að koma fram nú og gagnrýna aðferðina sem var viðhöfð við söluna. Kristrún, sem er hagfræðingur að mennt, hefur hvað eftir annað komið fram á opinberum vettvangi og sagt okkur hinum hvernig eigi að reka þjóðarbúið. Hún hefur bent okkur á að hún sé sérfræðingur. Sumt af því hefur verið prýðilegt og annað fullkomin della, eins og Óðinn benti á í síðustu viku.
Það er óskiljanlegt af hverju Ríkisútvarpið spyr Kristrúnu ekki hvers vegna hún kom ekki fram með gagnrýnina fyrir útboðið. Það er ekki rannsóknarefni - að minnsta kosti fljótrannsakað. Ríkisútvarpið er í liði Samfylkingarinnar nú eins og endra nær. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Vinstri græna.
* * *
Heiðarlegri afstaða
Afstaða fjárlaganefndarmannanna Bryndísar Haraldsdóttur í Sjálfstæðisflokki og Guðbrands Einarssonar í Viðreisn er heiðarlegri. Í umræðum á þingi þann 8. apríl sagði Bryndís til að mynda:
Ég verð að viðurkenna að ég er svekkt þegar ég les lista yfir þá sem hafa fengið að kaupa í þessu ferli. Ég stóð í þeirri meiningu að við værum fyrst og fremst að leita eftir stórum og öflugum fjárfestum sem ætluðu að vera þarna til lengri tíma. Þegar ég fer svo að lesa gögnin þá átta ég mig á því að það er ekkert sem stendur þar beinum orðum að svo eigi að vera. Ég naga mig sjálfa í handarbökin fyrir að hafa ekki spurt þeirrar spurningar og ég ímynda mér að við séum fleiri í þessum sal sem höfum gert það.
Guðbrandur var ekki sáttur í umræðunum um að ábyrgðin lægi hugsanlega að einhverju leyti í þinginu:
Ég er bara mjög hissa á því að sjá hér nefndarmenn í fjárlaganefnd koma hér upp og fleygja sér á sverðið. Við vorum aldrei beðin um það að semja reglur sem næðu utan um söluna. Það var bara engin beiðni um það. Fyrir okkur var bara kynnt aðferð sem átti að nota sem kölluð er tilboðsleið.
Það er búið að ákveða fyrir löngu síðan að ráðherrann geti selt þennan banka. Við vorum bara beðin um álit á því. Punktur. En að hlusta á þessa umræðu hér að það eigi að fara að gera fjárlaganefnd og þingið að einhverjum sökudólgi í málinu: Hvaða rugl er þetta?
Þó að Guðbrandur vilji ekki taka neina ábyrgð á málinu þá viðurkenna þau bæði að þau höfðu ekki hugmynd um hvað var verið að kynna. Ekki hugmynd um hvað þessi tilboðsleið þýddi og hverjir gætu keypt. Þetta er í sjálfu sér skiljanlegt. Þetta er flókið viðfangsefni en óvanalegt að þingmenn viðurkenni fávisku sína.
* * *
Sérfræðingurinn Kristrún (alls ekki stjörnuhagfræðingur)
En getur Kristrún Frostadóttir borið þessu við, fákunnáttu, skilningsleysi, þýðingu flókinna orða og svo framvegis? Varla.
Kristrún var aðalhagfræðingur Kviku banka. Vegna kunnáttu sinnar, að sögn, fékk hún áskriftarréttindi í bankanum fyrir um 3 milljónir sem urðu á fáeinum árum að 100 milljónum króna. Þessu virtist Kristrún reyna að leyna fyrir kosningar í haust og líklega situr Samfylkingin ekki í ríkisstjórn vegna þess. Þessi stjarnfræðilega upphæð sýnir að þarna hlýtur að vera á ferðinni einkar hæfur hagfræðingur. Reyndar kallaði Kristrún sjálfa sig stjörnuhagfræðing fyrir ekki löngu og missti vitið af reiði þegar Óðinn vitnaði í hennar eigin orð.
En er það virkilega svo að Kristrún hafi ekki spurt á fundinum með Bankasýslunni hver kostnaðurinn af sölu Íslandsbanka yrði? Ekki síst í ljósi þess hversu dýrt frumútboð bankans var. Var það virkilega þannig að ekki nokkur einasti maður hafi velt fyrir sér hvað einkavæðingar í fortíðinni kostuðu? Hvernig getur kostað miklu meira að selja Íslandsbanka en kostaði að selja Símann, Landsbankann, Búnaðarbanka og Fjárfestingabanka atvinnulífsins?
Eru alþingismenn bara upp á punt? Mæta þeir bara í þinghúsið til að drekka kaffi? Hvað þá fjárlaganefndarmennirnir sem fengu ásamt efnahags- og viðskiptanefnd sérstaka kynningu áður en annar hluti sölu Íslandsbanka fór fram.
* * *
Frábær hugmynd Dags
Óðinn ætlaði sér ekki að ræða sjónarmið bæði Dags og Kristrúnar aðra vikuna í röð, en svona er lífið stundum óútreiknanlegt.
Þegar Óðinn sat í Strætó í byrjun vikunnar sá hann mynd af Degi okkar Eggertssyni á skjá í einu strætóskýlinu. Þar stóð Borgarlínan - klárum dæmið. Þetta er einhver allra besta hugmynd sem nokkur stjórnmálamaður á Íslandi hefur komið fram með lengi. Dæmið um Borgarlínuna er einfalt reikningsdæmi, ekki óútreiknanlegt eins og lífið og nauðsynlegt er, eins og Dagur segir, að klára það. Þá fyrst fæst rétt niðurstaða.
Það gengur ekki að fara út í tuga milljarða framkvæmd, jafnvel hundruð milljarða framkvæmd án þess að reikna dæmið til enda.
Óðinn kvartaði yfir því í mars 2018 og aftur í júlí 2019 að hugsanlega væri framkvæmdakostnaðurinn verulega vanmetinn og rekstrarkostnaðinn hefði enginn reiknað út. Óðinn veit ekki til þess að þetta hafi verið gert og því sýnir það pólitískt vit borgarstjórans að vilja ráðast í útreikninginn nú.
Um stofnkostnaðinn sagði Óðinn í júlí 2019:
Stofnkostnaðurinn hefur verið reiknaður og er áætlaður 70 milljarðar króna, sem dreifist yfir 10-15 ára framkvæmdatímabil. Þegar rætt er um stofnkostnað er átt við framkvæmdakostnað en ekki vagnana sjálfa, hverrar náttúru sem þeir nú verða. Þá er vert að hafa í huga að opinber innviðaverkefni á Íslandi fara að jafnaði verulega fram úr áætlun og 90% af stærri verkefnum standast hvorki kostnaðar- né tímaáætlanir.
Í þessum efnum eru víti til að varast. Í Stafangri í Noregi er þannig verið að leggja 50 kílómetra borgarlínu sem nefnist Bussveien. Árið 2014 var áætlað að kostnaðurinn myndi nema jafnvirði 58 milljarða íslenskra króna. Í vor var endurskoðuð áætlun komin í 206 milljarða.
Það vekur raunar sérstakar áhyggjur að í hinum íslensku útreikningum um stofnkostnað við Borgarlínu er gert ráð fyrir að lagning hvers kílómetra hennar nemi 1,2 milljörðum króna, en í samsvarandi verkefnum frænda okkar í Noregi er hann á milli 3-4 milljarðar króna. Hafa þeir þó á töluverðri reynslu að byggja í þessum efnum.
* * *
Skíttap í borginni
Þessi hugmynd Dags er einnig skynsamleg í ljósi skíttaps af rekstri borgarsjóðs á síðasta ári. Tapið nam 3,8 milljörðum. Ef einnig er horft til B hlutans (stofnanir sveitarfélags, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélags) þá sést hversu grafalvarlegur vandinn er.
Félagsbústaðir tekjufæra 19 milljarða virðisbreytingu vegna hækkunar íbúðaverðs. Þarna er Reykjavíkurborg að hagnast á lóðaskortinum sem Reykjavíkurborg ber mest ábyrgð allra á.
Að auki námu gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur 6,6 milljörðum króna. Ef ekki hefði komið til þessa hefði tapið á A og B hluta Reykjavíkurborgar verið 2,2 milljarðar. Þetta er auðvitað ömurleg niðurstaða.
En höfum ekki áhyggjur. Dagur okkar Eggertsson ætlar að reikna dæmið til enda.
Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .