Heiðar Guðjónsson fjárfestir skrifaði grein á Vísi í síðustu viku sem vakti mikla athygli. Þar bendir hann á að Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sé án klæða rétt eins og keisarinn í ævintýri H.C. Andersen.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir skrifaði grein á Vísi í síðustu viku sem vakti mikla athygli. Þar bendir hann á að Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sé án klæða rétt eins og keisarinn í ævintýri H.C. Andersen.

Heiðar veltir þeirri spurningu upp hvort það sé skilvirk leið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum að flytja inn til Íslands með olíuknúnum tankskipum útblástur sem er tilkominn vegna kolakyndingar á íbúðarhúsnæði í Sviss og dæla honum niður í jörð við hliðina á Bónusversluninni á Völlunum í Hafnarfirði.

xxx

Ekki stóð á viðbrögðum við greininni. Það kemur ekki á óvart enda virðist meirihluti starfsmanna Carbfix starfa við fjölmiðlasamskipti með einum eða öðrum hætti. Fyrirtæki hefur hvorki meira né minna en samskiptaleiðtoga innan sinna snæra. Týr telur að fyrirtæki á borð við HS Orku ættu að draga lærdóm af þessu og jafnvel íhuga að ráða til sín fjölmiðlamarkskálk. En það er önnur saga.

xxx

Af þessum sterku viðbrögðum við grein Heiðars hafði Týr mest gaman af innleggi Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra OR. Hann heldur því fram að tilvist þessa dótturfélags OR sé hvorki meira né minna en „stærsta framlag Íslands í loftlagsmálum heimsins“.

Týr veltir fyrir sér hvort það sé ekki áhyggjuefni að forstjóri Orkuveitunnar sé ekki meðvitaður um að framlag Íslands í þessum efnum er fyrst og fremst að hér sé að finna það nútímasamfélag sem hefur hvað sjálfbærnustu orkunotkun heims.

En hann ætti að vita hvað hann er að tala um. Hann var jú bæjarstjóri á Akranesi þegar Running Tide hóf að dreifa kanadískum viðarspæni í Hvalfirði í nafni hnattrænnar hlýnunar.

xxx

Sævar Freyr segir: „Og þetta er ekki einhver lyfturæða fyrir startup fyrirtæki. Við erum að tala um marg vottaða og sannreynda aðferð sem hefur vakið athygli stærstu fjölmiðla og þjóðarleiðtoga heims.“

Týr veltir fyrir sér hvað Sævar eigi við þegar hann talar um að lausnin hafi vakið athygli „stærstu þjóðarleiðtoga heims“. Filip Vujanovic, forseti Svartfjallalands, er vel yfir tveimur metrum á hæð og Tuilaepa Malielegaoi, fyrrum forsætisráðherra Samóa-eyja, var með sverari stjórnmálamönnum. En Týr sér ekki að áhugi þeirra gildi sem einhver gæðastimpill á gæluverkefni starfsmanna Orkuveitunnar.

Grein Heiðars vakti athygli vegna þess að þeim sem fylgjast með stjórnmálum er kunnugt um ævintýri starfsmanna Orkuveitunnar og hvort sem litið er til risarækjueldis, Línu.net, Gagnaveitunnar, Ljósleiðarans eða þá tilrauna til þess að kaupa filippseysk orkufyrirtæki þá vita allir að sporin hræða.

Týr er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí.