Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, berst fyrir því að Landsvirkjun greiði hreppnum fasteignagjöld af virkjunarmannvirkjum vegna Búrfellsvirkjunar og annarra virkjana. Hefur hann bent á að ef Landsvirkjun greiddi fasteignagjöld af virkjunum myndu fámenn sveitarfélög úti á landi fá tekjur upp á hátt í tuttugu milljarða á ári. Hefur hann hótað að þessi sveitarfélög komi í veg fyrir byggingu nýrra virkjana þar til að kröfum hans verður mætt. Hrafnana undrar ekki þessi harða afstaða og eru spenntir fyrir þeirri hugsun að nokkrir hreppar úti á landi muni verða einhverskonar ígildi Katar og Barein meðal íslenskra sveitarfélaga – fámenn en vellauðug.

Hrafnarnir telja ólíklegt að þessari kröfu verði mætt af ríkisstjórninni en sjá eigi að síður flöt á lausn málsins. Landsvirkjun leitar nú að lóð undir nýjar höfuðstöðvar. Það blasir við að höfuðstöðvarnar rísi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og þá helst við hliðina á versluninni Árborg. Með þessu fengi Hörður Arnarson og hans fólk í Landsvirkjun ómyglaðar höfuðstöðvar og hreppurinn fasteignagjöld af höfuðstöðvunum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.